Nemendur í áfanganum Rekstraráætlanir, leiðbeinandi þeirra Ingólfur Arnarson og Guðmundur Sigvaldason

Nemendur í áfanganum Rekstraráætlanir, leiðbeinandi þeirra Ingólfur Arnarson og Guðmundur Sigvaldason

4. júní 2019

Tenging námsins við atvinnulífið endurspeglast í raunverulegum verkefnum

Eitt af einkennum skólans er mikil áhersla á vægi raunhæfra verkefna í námsleiðum nemenda. Liður í því eru áfangarnir Rekstraráætlanir I & II, þar er lögð áhersla á að þjálfa nemendur, bæði í viðskiptafræði og viðskiptalögfræði, í að vinna raunveruleg verkefni. Í samvinnu við fyrirtæki á Vesturlandi fá nemendur við skólann þjálfun í að beita sinni fræðilegu þekkingu til þess að leysa raunveruleg verkefni innan fyrirtækja í rauntíma. Síðastliðin sex ár hefur fjöldi fyrirtækja tekið þátt í verkefninu og veitt ótal nemendum raunverulega reynslu af atvinnulífinu. Verkefni áfanganna eru unnin í nánu samstarfi við fyrirtækin og undir handleiðslu leiðbeinenda sem hafa víðtæka þekkingu og reynslu af rekstri fyrirtækja.

Við heyrðum í Guðmundi Sigvaldasyni, framkvæmdastjóra Golfklúbbsins Leynis, og spurðum hann út í reynslu hans af þátttöku í verkefninu, en hann fékk til sín hóp nemenda veturinn 2018. „Við eigum í löngu og farsælu sambandi við háskólann, nemendurnir komu til okkar veturinn 2018 og var verkefninu skilað síðastliðið sumar. Fyrst var þetta Rekstraráætlanir I þar sem nemendur unnu einföld verkefni innan fyrirtækisins og svo tók við Rekstraráætlanir II. Það var næsta skref og vinnan varð meira nothæf fyrir okkur, stjórnendur golfklúbbsins, það var dýpri og meiri nálgun. Verkefnið sem þau unnu tók til þess að golfklúbburinn var að byggja nýja félagaaðstöðu og hvaða áhrif það gæti haft á rekstur golfklúbbsins. Þetta var 1000 fermetra nýbygging sem hefur ýmis áhrif, tekju- og rekstrarlega á golfklúbbinn, nemendurnir voru að kanna hvað væri fýsilegt að gera í rekstri í framhaldi."

Aðspurður um hvort að verkefni nemendanna hefði haft einhver áhrif á starf golfklúbbsins sagði Guðmundur svo vera upp að ákveðnu marki. „Verkefnið hefur áhrif á þann hátt að maður hefur það til hliðsjónar, verkefnið framkallar ýmsar hugmyndir og maður horfir til þess, við getum nýtt okkur hugmyndir nemendanna“. Guðmundur segist hafa verið ánægður með innkomu nemendanna og þeirra framlag. „Golfklúbburinn var mjög ánægður með útkomuna, flottur hópur sem stóð að verkefninu, það var gott að vinna með þeim. Við hittum þau í lokinn á fundi þar sem þau voru með kynningu á verkefninu og samstarfið var í heild mjög ánægjulegt.“

Þessir áfangar halda áfram á næsta skólaári og mun einn hópur koma til með að vinna aftur með golfklúbbnum að öðrum verkefnum.

Umsóknarfrestur í grunnnám við Háskólann á Bifröst rennur út 15. júní næstkomandi, kynntu þér fjölbreytt úrval grunnnáms hér.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta