10. nóvember 2023

Svona notum við gervigreind

Rektor Háskólans á Bifröst skipaði sl. vor starfshóp, sem falin var að marka háskólanum stefnu í notkun gervigreindar. Þá var hópnum einnig falið það verkefni að setja saman leiðbeiningar fyrir kennara og nemendur um rétta notkun gervigreindar innan náms- og starfsramma háskólans.

Tilgangur stefnumótunarinnar var að skilgreina viðeigandi notkun innan Háskólans á Bifröst á gervigreindarforritum í máltækni, s.s. ChatGPT ásamt öðrum sambærilegum forritum.

Stefnan miðar jafnframt að því að tryggja að ábyrgð og gott siðferði sé ávalt haft að leiðarljósi í allri notkun, óháð því hvort kennsla, rannsóknir eða stjórnunarstörf eiga í hlut. Þá er stefnunni einnig ætlað að vinna gegn mögulegri misnotkun þessara nýtilkomnu tækni.

Stefnan hefur ásamt leiðbeiningum verið rýnd af öllum hlutaðeigandi aðilum innan háskólans, s.s. háskólaráðs, stjórnsýslu og akademískum deildum. Þar sem jafnframt má gera ráð fyrir að gervigreind muni þróast hratt á næstu misserum og árum, verða gögn málsins endurskoðuð með reglubundnum hætti.

Þess má svo geta að starfshópinn skipuðu Hanna Kristín Skaftadóttir, lektor við viðskiptadeild, Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, kennslustjóri, Sólveig Hallsteinsdóttir, ritstjóri kennsluskrár og Lydía Geirsdóttir, gæðastjóri við Háskólann á Bifröst.

Sjá stefnu HB um notkun gervigreindar

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta