Stundar nám frá Bifröst á Vesturbakkanum 18. febrúar 2016

Stundar nám frá Bifröst á Vesturbakkanum

Sigurður Kaiser, nemandi á lokaári í HHS - Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, hefur síðustu mánuði dvalið í Ramallah á Vesturbakkanum í Palestínu, og samhliða stundað nám á Bifröst.

Á þessari önn hefur Sigurður m.a. setið námskeið um stjórnmál Miðausturlanda hjá Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni, þar sem fjallað er um sögu og þróun ríkja svæðisins og stöðuna og horfurnar í stjórnmálunum. Segir hann það mikla upplifun að vera í suðupottinum miðjum og í návígi við átökin á svæðinu. Dvölin á þessum framandi slóðum geri það að verkum að námið lifni við.

„Það bætir miklu við námið að geta upplifað hluta þess hér í Miðausturlöndum og maður fær á það nýja sýn. Auðveldara er að greina samhengi hlutanna, átökin á svæðinu verða ljóslifandi og maður hefur betri skilning á fréttum af atburðum, sem oft eru einhliða. Að tengja fræðin og námið með þessum hætti við daglegt líf og upplifa átökin og afleiðingarnar á eigin skinni, gerir það að verkum að maður skilur aðstæðurnar betur og skynjar vonir og væntingar fólksins með beinum hætti,“ segir Sigurður.

Hugmyndir um sjálfstæði og fullveldi síkvikar

Sigurður skrifaði hluta lokaritgerðar sinnar á Vesturbakkanum, en þrátt fyrir að hún hafi fjallað að mestu um íslenskan veruleika, efnahagslíf og stjórnmál, þá segir hann það hafa dýpkað skilning á ýmsum hugtökum stjórnmálanna að dvelja á þessum fjarlægu slóðum.

„Það var nokkuð sérstakt að vinna verkefnið hér í Palestínu, þar sem ritgerðin fjallar um fullveldi Íslands og hugmyndir um sjálfstæði, þjóðir og þjóðerni. Palestínubúar eru að fara í gegnum frelsis- og sjálfstæðisbaráttu, réttum 100 árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki. Þótt aðstæður séu aðrar og staða þjóðanna ólík, þá eru mörg þeirra hugtaka og hugmynda sem gjarnan eru tengd við sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, lifandi í hugum Palestínubúa og skipta miklu máli í baráttunni fyrir frjálsri Palestínu,“ segir Sigurður.

Sigurður notar tæknina til að sækja tima á Bifröst
 
 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta