Mynd tekin á stofnfundi Rannsóknaseturs skapandi greina í gær. (Ljósm: Birgir Ísleifur Gunnarsson)

Mynd tekin á stofnfundi Rannsóknaseturs skapandi greina í gær. (Ljósm: Birgir Ísleifur Gunnarsson)

24. maí 2023

Stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina

Stofnfundur Rannsóknaseturs skapandi (RSG) greina var haldinn í gær, þriðjudaginn 23.5. sl. Hlutverk rannsóknasetursins verður m.a. að stuðla að samráði á milli háskóla, stofnana, stjórnvalda, Hagstofu Íslands og atvinnulífs menningar og skapandi greina, efla samstarf sem styrkt getur innviði og vöxt atvinnugreinanna og bæta gagnaöflun og greiningu sem nýtist svo aftur rannsóknum og þekkingarmiðlun innan þessa ört vaxandi geira. 

Stofnaðilar setursins eru Háskólinn á Bifröst, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Listaháskóli Íslands. Háskólinn á Bifröst sér um umsýslu setursins. Stofnaðilar skipa einn fulltrúa í stjórn hver, Samtök skapandi greina skipa einn fulltrúa í stjórn og menningar- og viðskiptaráðherra tvo, þ.m.t. formann stjórnar sem er Anna Hildur Hildibrandsdóttir. Aðrir stjórnarmeðlimir eru; Halla Helgadóttir (Samtökum skapandi greina), Hulda Stefánsdóttir (Listaháskóla Íslands), Stefán Hrafn Jónsson (Háskóla Íslands), Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Háskólanum á Bifröst), Laufey Haraldsdóttir (Háskólanum á Hólum), Eyjólfur Guðmundsson (Háskólanum á Akureyri) og Kristrún Heiða Hauksdóttir (menningar- og viðskiptaráðuneytinu). Stjórnin mun kynna áherslur sínar og starfsáætlun í júní ásamt því að koma á laggirnar ráðgjafahópi í samráði við fulltrúa atvinnulífs skapandi greina og virkja þannig samtal ólíkra aðila innan þeirra. 

Aðdragandinn: Frá árinu 2019 hefur Hagstofa Íslands unnið að því að safna og gefa reglulega út talnaefni um þrun atvinnugreina menningar og skapandi greina. Menningarvísar voru fyrst gefnir út árið 2021 og í annað sinn í maí sl. Haustið 2021 var sett á laggirnar undirbúningsstjórn fyrir stofnun Rannsóknasetur skapandi greina.

Verkefnið var leitt af Háskólanum á Bifröst í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Samtök skapandi greina með stuðningi frá fjórum ráðuneytum. Í undirbúningsstjórninni sátu Anna Hildur Hildibrandsdóttir formaður, Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir fyrrum forstöðukona Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Fyrir hönd Samtaka skapandi greina sátu Guðný Guðjónsdóttir fyrrum forstöðukona Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Erling Jóhannesson formaður Bandalags íslenskra listamanna. Undirbúningsstjórnin hefur nú skilað af sér niðurstöðum úr þarfagreiningu og kortlagningu á skapandi greinum á Íslandi sem ætlað er sem vegnesti fyrir RSG. Skýrsla þess efnis verður gefin út og kynnt í júní.

Myndin með fréttinni var tekin á stofnfundi Rannsóknaseturs skapandi greina f.v.: Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir forseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, Hólmfríður Sveinsdóttir rektor við Háskólann á Hólum, Anna Hildur Hildibrandsdóttir formaður stjórnar, Stefán Hrafn Jónsson forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, Hulda Stefánsdóttir sviðsforseti akademískrar þróunar hjá Listaháskóla Íslands og Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri.  (Ljósm: Birgir Ísleifur Gunnarsson)

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta