Eiríkur Bergmann og Magnús Árni Skjöld Magnússon gegnt starfsstöð HB í Borgartúni 18.

Eiríkur Bergmann og Magnús Árni Skjöld Magnússon gegnt starfsstöð HB í Borgartúni 18.

9. apríl 2024

Stjórnvísindi – heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði

Stjórnvísindi – heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði er ný námslína sem hefur göngu sína næsta haust. Háskólinn á Bifröst er eini háskólinn hér á landi sem býður fram þetta fjölþætta nám, en fyrir hvað standa stjórnvísindi? Dr. Magnús Árni Skjöld Magnússon er fagstjóri nýju námslínunnar.  

Margt bendir til þess, að fólk þurfi fjölþættari færni og þekkingu til að geta greint gangverkið í nútímasamfélagi, en almennt býðst í heildstæðu námi innan menntakerfisins. Má að mörgu leyti rekja það til þess, að sérhæfing hefur síaukist í háskólum á kostnað víðtækari sýnar á þjóðfélagið, en hættan við þessa síauknu sérfræði er sú, að skilningur á umhverfinu þrengist með þeim afleiðingum að e.k. rörsýn verður ráðandi nálgun á samfélagið.

Það er svo, að sögn Magnúsar, einmitt þessu ákalli um breiðari yfirsýn á gang efnahagsmála, stjórnmála og viðtekinna hugmynda samtímans um heiminn, sem nýja BA-náminu er ætlað að svara.

Í grunninn byggir nýja námslínan á heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, en þessar sígildu fræðigreinar hafa undanfarin 20 ár verið kenndar að enskri fyrirmynd við Háskólann á Bifröst. Það er síðan engin tilviljun, að sögn Magnúsar, hversu hátt það nám hefur um langt árabil verið skrifað innan breska stjórnkerfisins.

„Innsýn í þessi grundvallarfög félags- og hugvísindanna er býsna gott verkfærasett, ekki aðeins fyrir þátttöku í stjórnmálum, heldur einnig störf sem snerta samfélagsmál, s.s. í stjórnsýslu, blaðamennsku, innan þriðja geirans eða á vettvangi alþjóðamála, svo að dæmi séu tekin. Á það jafnt við um sérfræðistörf, ráðgjöf eða stjórnun. Þá eru stjórnvísindi mjög góður grunnur fyrir þá sem hyggja á framhaldsnám innan félagsvísindanna.“

Hvað nafnið snertir, þá vísa stjórnvísindi til þess sígilda grunns sem námslínan byggir á, auk þess sem það rímar ágætlega við heiti skandinavísku systurgreinarinnar statsvetenskap. „Stjórnvísindi eru í raun yfirheiti á því sem við höfum í grunninn verið að kenna síðustu tvo áratugi,“ bendir Magnús á. „Við lítum með stolti til undangenginna 20 ára og viljum með fræðilegri endurskoðun og uppfærslu námslínunnar sem tekur nú við af HHS, leggja grunninn að farsælu gengi stjórnvísinda næstu áratugi."  

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta