Guðmundur Finnbogason (1873-1944)
9. september 2024Stjórnunarkenning Guðmundar Finnbogasonar
Vísbending (29. tbl., 42. árg.) hefur birt áhugaverða grein eftir Njörð Sigurjónsson, prófessor í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst, um stjórnunarkenningar Guðmundar Finnbogasonar.
Guðmundur var sálfræðingur og heimspekingur að mennt frá Kaupmannahafnarháskóla, en eftir hann liggja tvö brautryðjendaverk í stjórnunarfræðum eða greinasafnið Vit og strit (1915) og Vinnan (1917).
Í grein Njarðar kemur m.a. fram að fyrra ritið hafi að geyma samantekt á fyrirlestrum sem fjalli frá nokkrum ólíkum sjónarhornum um skipulag vinnu. Í forgrunni hafi Guðmundur jafnframt tvær greinar er snúi að hugmyndum bandarísku verkfræðinganna Fredricks W. Taylor og Franks Gilbreth um vinnutímamælingar og „vísindalega stjórnun“ (e. scientific management), sem Guðmundur tengir við tilraunir í hagnýtri sálfræði með tilvísunum til rannsókna Franks Parson, Alfreds Lehmann og Hugos Münsterberg. Verk þessara fræðimanna, ekki hvað síst kenningar Taylor, áttu sem kunnugt er eftir að marka djúp spor í fræðasögu stjórnunarkenninga.
Í síðari bók sinni um stjórnun nálgist Guðmundur viðfangsefnið hins vegar á heildstæðari hátt og má þar m.a. sjá að fagurfræði vinnunnar, orkukenning Willhelms Ostwalds, hvatakenningar og hugmyndir um bætt vinnulag hafi verið honum hugleiknar.
Þá bendir Njörður einnig á að hugmyndir Guðmundar um fræðslu, hvatningu og frumkvæði verkafólks veki upp spurningar um hvernig rannsóknum hans hefði farnast, hefði hann náð að vinna að frekari samþættingu vinnuvísinda, félagsfræði og verkvísinda, sem urðu uppspretta að ýmsum straumum í stjórnunarfræðum eftir því sem fram leið á 20. öldina.
Fyrst og síðast telur Njörður þó, að Guðmundur og verk hans séu allrar athygli verð, ekki hvað síst í sögulegu samhengi íslenskra stjórnunarkenninga, ásamt þeirri meginreglu sem hann fylgdi að nýta ólík sjónarmið fræðasviða til að skilja heiminn.
Fyrir vikið vefur Guðmundur saman, að sögn Njarðar, fjölbreyttar hugmyndir um vinnu, stjórnun og umhverfi vinnunnar í kenningum sínum, á bæði frjóan og víðsýnan hátt.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta