Stjórnendur hugsi ekki bara um gróðann 22. apríl 2015

Stjórnendur hugsi ekki bara um gróðann

Um leið og starfsfólk fer að upplifa að það sé komið fram við það af ósanngirni eru stjórnendur í vondum málum, segir Sigurður Ragnarsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs Háskólans á Bifröst, en hann hefur rannsakað þjónandi forystu. Hann segir óánægju launafólks í garð atvinnurekenda skiljanlega.

Kjaraviðræður eru í pattstöðu en atvinnurekendur telja sig ekki hafa svigrúm til að koma til móts við kröfur launafólks. Þá hleypti hækkun á launum stjórnarmanna HB Granda í síðustu viku illu blóði í verkalýðshreyfinguna og hefur truflað samningaviðræður, að sögn framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Málið vekur upp spurningar um samband stjórnenda á Íslandi við starfsfólk sitt. Þjónandi forysta er hugmyndafræði á sviði stjórnunar og forystu sem hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár. Sigurður segir að í grófum dráttum snúist hún að hafa sanngirni og heilindi að leiðarljósi í samskiptum við starfsmenn, hluthafa og samfélagið í stað þess að einblína á gróðann. Ánægja starfsfólks sé meðal annars lykillinn að farsæld, sem óánægja geti spillt fyrir. „Stjórnendur þurfa að fá allt liðið með sér til að byggja upp sterka liðsheild. Og hvernig í ósköpunum er hægt að byggja upp sterka liðsheild, ástríðu meðal starfsfólks, ef andinn er svona."

Ef það þarf þurfi að hækka laun stjórnenda þurfi að rökstyðja það fyrir starfsfólki og sannfæra það um réttmæti þess. Þá þurfi stjórnendur að ganga undan með góðu fordæmi á tímum aðhalds og skerðinga. 

„Stjórnendur og eigendur fyrirtækja eru fyrirmynd og það finnst mér gleymast mjög oft. Þess vegna í þessum kjaraviðræðum öllum þá hefur maður skilning á því hvers vegna fólk er ekki ánægt. Það þarf að réttlæta hlutina."

Sigurður var gestur Síðdegisútvarpsins.

 


Frétt á ruv.is

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta