Stærri og öflugri háskóli á landsbyggðinni
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fór yfir stöðu háskólamála í viðtali Í bítinu á Bylgjunni í morgun.
Ráðherra sagði meginmarkmið með sameiningu háskólanna á Akureyri og á Bifröst vera að byggja upp öflugan opinberan háskóla á landsbyggðinni. Fýsileikakönnun hefði leitt í ljós að háskólarnir deildu framtíðarsýn og á þeim grundvelli væri nú verið að vinna áfram að hugmyndinni. Sú vinna væri nú í höndum starfsfólks háskólanna.
Þá tók ráðherra undir með Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, forseta Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, að annað mikilvægt markmið væri að tryggja jafnræði til náms með því að efla fjarnám. Ólína ræddi stöðuna í sameiningarmálum HA og HB í gærmorgun, einnig Í bítinu, en báðir háskólar standa sem kunnugt framarlega í fjarnámi og er efling þess sögð á meðal helstu sóknarfæra í áðurnefndri fýsileikakönnun.
Jafnframt undirstrikaði ráðherra, að sameining háskólanna væri ekki hagræðingar- eða sparnaðaraðgerð. Sameinaðir stæðu háskólanir öflugari að vígi en hvor í sínu lagi. Það myndi m.a. gera sameinuðum háskóla kleift að auka framboð á háskólanámi frá því sem nú er samanlagt við hvorn sinn háskóla.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta