3. janúar 2024

Stærðarhagkvæmni skilar betri þjónustu

Viðamikil könnun á þjónustu sveitarfélaga, sem Vífill Karlsson, prófessor við Háskólann á Bifröst og forstöðumaður Rannsóknaseturs byggða- og sveitarstjórnarmála, vinnur að, bendir til þess að sameining sveitarfélaga skili sér í betri þjónustu til íbúa. 

Vífill kynnti fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar í erindi sem hann hélt skömmu fyrir áramót við Háskólann á Akureyri. Af 13 þáttum sem tengjast þjónustu sveitarfélaga þá batnaði þjónustan í 10 tilvikum, en rannsóknin byggir á svörum ríflega 14.000 manns.

Í viðtali sem tekið var við Vífil í Spegli RÚV (2. janúar sl.) kemur m.a. fram að áskoranir sem dreifbýl sveitarfélög takast á við í þjónustu einskorðist ekki við þátta sem tengjast fámenni. Íbúar í fjölkjarna sveitarfélögum, þ.e. sveitarfélögum með marga byggðakjarna eða í þeim sem eru landfræðilega víðfeðm séu einnig óánægðari með þjónustu sveitarfélagsins, en íbúar í þéttbýli.

Þá bendir einnig margt til þess að erfiðleikar smærri sveitarfélaga við að laða sérfræðinga til starfa hjá sér, geri þeim enn erfiðara um vik við að halda þjónustustigi sínu uppi.

Í viðtalinu undirstrikar Vífill jafnframt, að hér sé einungis um fyrstu niðurstöður að ræða úr rannsókn sem spanni viðmikinn og flókinn málaflokk. Niðurstöðurnar bendi þó engu að síður sterklega til þess, að stærðarhagkvæmni skili sér í aukinni ánægju íbúa með þjónustu viðkomandi sveitarfélags. Sameinuð sveitarfélög nái þannig að beisla hagræði stærðarinnar með betri þjónustu.

Varðandi kjörstærð sveitarfélaga bendir Vífill á danskar rannsóknir sem bendi til þess að hagkvæmasti fjöldi sé í kringum 20-30 þúsund íbúar. Á móti komi að Danmörk sé minni og þéttbýlli en Ísland og gaumgæfa þurfi vandlega hvort og hvernig yfirfæra megi slíkar rannsóknir á íslenskar aðstæður.

Sem dæmi um þetta nefnir Vífill að sum sveitarfélög hér á landi séu undir 1000 íbúum, sem sé talsvert langt frá áðurnefndu viðmiði. Þá sé eitt sveitarfélag með noká annað hundrað þúsund íbúa og því megi spyrja hvort skoða þurfi stærð sveitarfélaga hér á landi út frá báðum endum stæðarskalans.

Hlusta má á viðtalið við Vífil Karlsson hér 

Ljósmyndin af Vífli sem birtist með þessari frétt var tekin á Byggðaráðstefnu 2022.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta