Spurning vikunnar - Misserisvarnir
Misserisvarnir fóru fram 9. og 10. maí. Misserisvarnirnar eru einn af hánpuktum skólaársins, en þau eru rannsóknarverkefni á stærð við lokaritgerð á Bakkalár-stigi sem nemendur vinna að í hópum en hafa aðeins 3 vikur til þess. Þegar verkefninu hefur verið skilað inn þurfa hóparnir síðan að verja verkefni sitt fyrir prófnefnd og öðrum hóp nemenda. Við ákváðum því að spyrja nokkra nemendur um þeirra upplifun af því að vinna misserisverkefni.
|
"Misserisverkefnin eru strembin og það fylgir þessu stress, en þetta er samt skemmtilegt og þetta er góð reynsla að kunna að gera svona rannsóknarverkefni. Ég var að gera þetta í fyrsta sinn, ég vissi ekkert hvað ég var að gera, en það er miklu betra að taka það út núna heldur en á einhverju risa verkefni eins og B.S. eða Masters ritgerð. Misserisvarnirnar eru strembnar, en eins og ég segi þá er þetta góð reynsla og maður tapar engu við að gera þetta." |
|
"Misserisverkefni eru krefjandi verkefni unnin í hóp á knöppum tíma. Þau draga fram eiginleika og styrki sem maður vissi ekki að maður byggi yfir. Það að vinna stórt hópverkefni á svo stuttum tíma kallar á að þú metir og sjáir þína eigin styrkleika í raunsæju ljósi sem og þeirra sem vinna með þér. Í kring um sameiginlegt verkefni og metnað fyrir því skapast sterk eining, sem ég tel hæpið að finnist í annars konar hópavinnu. Af vörninni lærast verðmætar leksíur, þú þarft að vera tilbúinn til þess að standa upp og verja nálgun þína og að sjá hvað betur hefði mátt fara." |
|
"Fyrsta misserisverkefni mitt við skólann var bæði gefandi og krefjandi upplifun. Rannsókn hópsins snéri að ósamhverfri verðaðlögun á íslenskum bensínmarkaði og því mikil ný þekking og færni sem hópurinn þurfti að afla sér við úrvinnslu hennar. Þó ferlið hafi oft verið langt og strembið á köflum get ég sagt með fullri vissu að það hafi verið lærdómsrískasti hluti minnar háskólagöngu. Verkefnið vakti hjá mér mikinn áhuga á að framkvæma frekari hagrannsóknir og breytti sýn minni á áframhaldandi nám og starf." |
|
"Misserisverkefnin eru mjög krefjandi en jafnframt áhugaverð og gefandi. Þetta er einstakt tækifæri til að kynnast og starfa með ólíku og kraftmiklu fólki að fjölbreyttum verkefnum. Þar sem unnið er í stuttum lotum reynir á öguð vinnubrögð, samvinnu og skipulag. Verkefnið er góður undirbúningur fyrir fjölbreytt verkefni atvinnulífsins. Góður andi ríkir í samstarfi skóla og nemenda og eru misserisverkefnin mjög skemmtileg að takast á við."
|
|
"Misserisvekefnið var krefjandi og lærdómsríkt. Þetta er eins og einn stór rússíbani. Stundum gengur manni vel, stundum er allt ómögulegt en reynslan sem kemur með þessu er mjög verðmæt og á örugglega eftir að gagnast mér vel í framtíðinni, t.d. í ritgerðaskrifum og í atvinnulífinu. Misserisvörnin var skemmtilegri heldur en ég þorði að vona og ferlið var skemmtilegt á heildina litið, tvímælalaust það sem stendur upp úr á þessu skólaári." |
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta