Skapandi svæði og menning í borginni 3. október 2018

Skapandi svæði og menning í borginni

Á vegum European Sociological Association – Sociology of the arts er annað hvert ár haldin stór, akademísk ráðstefna helguð menningu. Ráðstefnan var haldin á Möltu í þetta sinn og var yfirskrift hennar Creative locations, arts, culture & the city. Þau Sigrún Lilja Einarsdóttir, dósent og forseti félagsvínda- og lagadeildar Háskólans á Bifröst og Njörður Sigurjónsson, dósent við deildina, sóttu ráðstefnuna sem er ætluð fólki sem stundar rannsóknir á sviði menningarstjórnunar og menningarstefnu.

„Samkvæmt þemanu fjölluðu mörg þeirra erinda sem þarna voru flutt um menningarstarf í borgum og alls konar verkefni sem þróast upp úr grasrótinni. Það var gaman að sjá hve mikil gróska er í þessum rannsóknum og hvað þær eru oft á tíðum fjölbreyttar. Um leið hef ég tekið eftir á ferðum mínum á þessa ráðstefnu síðastliðin ár að nú er meira orðið um rannsóknir tengdar menningarstjórnun,“ segir Sigrún Lilja.

Njörður tekur undir orð Sigrúnar Lilju og segir ráðstefnuna hafa verið fræðandi og góða með fjölbreyttum erindum um menningarstefnu, félagsfræði lista, mennningarfélagsfræði og menningarstjórnun.

„Sjálfur fylgdist ég helst með erindum um menningarstefnu enda snúast mínar rannsóknir að henni þessi misserin. Ég flutti á ráðstefnunni erindi um íslenska menningarstefnu og hugmyndina um  hugtakið þátttöku sem kemur víða fyrir í menningarstefnu íslenska ríkisins. En það er ekki skilgreint og hefur margskonar merkingu í ólíku samhengi. Þannig getur það átt við um almennt aðgengi, um aðsókn á viðburði, um gagnvirkni á netinu eða virka lýðræðisþátttöku, ásamt ýmsu öðru sem snertir menntun, efnahagslíf og ferðamennsku. Um þetta mikilvæga hugtak sköpuðust nokkrar umræður og lýstu aðrir fyrirlesarar hvernig rannsóknir, oft í samstarfi við borgaryfirvöld og sveitarfélög, hafa hjálpað til við að kortleggja og skilja menningarþátttöku. Ég vonast til þess að geta nýtt mér reynsluna af ráðstefnunni við frekari rannsóknir og miðlun á þeim,” segir Njörður.

Sigrún Lilja samsinnir þessu og segir það skipta miklu máli fyrir starfsmenn í akademísku umhverfi á litla Íslandi að geta sótt alþjóðlegar ráðstefnur og skiptst á hugmyndum og skoðunum við sína kollega og fylgst með umræðunni hverju sinni.

Á myndinni má sjá Sigrúnu Lilju flytja fyrirlestur sinn á ráðstefnunni.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta