21. apríl 2023
Skapandi hugsun og STEAM í háskólakennslu
Örar breytingar á samfélagi og tækni gerir sífellt ríkari kröfu um að fræðimenn úr ólíkum greinum geti sameinað þekkingu sína. Samhliða verður þörfin fyrir nýja nálgun í háskólakennslu, sem auðveldað getur fólki að vinna þverfaglega, sífellt brýnni.
Við vitum að sköpunargleði og skapandi hugsun er dýrmæt en hingað til höfum við ekki haft leiðir læra hana í þverfaglegu samhengi. Þessa áskorun er tekist á við í samstarfsverkefninu CT.UNI: Skapandi hugsun í háskólastarfi. Háskólinn á Bifröst er einn af átta háskólum frá 7 löndum sem er þátttakandi í verkefninu. Fræðimenn af ólíkum sviðum raun-, félags- og hugvísinda koma saman til að greina og þróa kennsluaðferðir sem byggjast á skapandi hugsun.
Degi sköpunargleði og nýsköpunar er fagnað, þann 21. apríl hvers árs, fyrir tilstuðlan Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið er að vekja vitund um mikilvægi skapandi starfs á öllum sviðum samfélags okkar, þvert á landamæri og menningarheima. Vikuna 15. til 21. apríl hafa því fjölmargir viðburðir verið haldnir um heim allann til að efla skapandi starf, og Bifröst ásamt samstarfsháskólum CT.Uni komu þannig að einum viðburðanna í Evrópu þetta sinnið. Kári Joensen, Erna Kaaber og Anna Hildur Hildibrandsdóttir voru þátttakendur í vinnusmiðju í Guarda í Portúgal 17. – 18. apríl. Þátttakendur voru þjálfaðir sérstaklega í STEAM (samvinna vísinda, tækni, verkfræði, lista og stærðfræði) og hönnunarhugsun sem aðferðafræði til að beita í kennslu. Vinnan byggir á frumrannsókn sem tengslanetið vinnur nú að og leggur grunnin að frekari þjálfun fyrir kennara tengda rannsókninni.
Markmið CT.UNI verkefnisins er að byggja undir STEAM nálgun við úrlausn viðfangsefna og að stuðla þannig að auknu samstarfi á milli vísinda, tækni, listar, verkfræði og stærðfræði. Nemendur, rannsakendur, fyrirlesarar og stjórnendur eru hvattir til að vinna saman, þvert á fræðasvið, með gagnrýnni og skapandi hugsun. Samhliða því að búa til efni og setja fram áhugaverðar hugmyndir um hvernig kenna megi skapandi hugsun á háskólastigi mun verkefnið bjóða upp á þjálfun fyrir áhugasama fyrirlesara í notkun þeirra.
Viðskiptaháskólinn í Bratislava í Slóvakíu leiðir verkefnið en samstarfsaðilar eru Tækniháskólinn í Dresden í Þýskalandi, Instituto Politécnico da Guarda í Portúgal, Tækniháskóli Slóvakíu í Bratislava, Háskólin í Amsterdam í Hollandi, Sapenza háskólinn í Róm á Ítalíu, Maria Curie-Sklodowska háskólinn í Lublin í Póllandi og Háskólinn á Bifröst. Kári Joensen leiðir þátt Bifrastar í samstarfsverkefninu, en auk Önnu Hildar og Ernu hafa Jón Freyr Jóhannesson og dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir verið þátttakendur í vinnusmiðjum á vegum hópsins. Samstarfsverkefnið hófst 2022, hlaut 36 milljón króna styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Verkefninu lýkur 2025.