Sigurvegarar Gulleggsins 2016 17. mars 2016

Sigurvegarar Gulleggsins 2016

Úrslit í frumkvöðlakeppninni Gullegginu eru nú ljós. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti sigurvegurum verðlaunagripinn Gulleggið við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík, laugardaginn 12. mars. Icelandic Startups sér um framkvæmd keppninnar, en Gulleggið var nú haldið í níunda sinn.

Sigurvegari Gulleggsins er hugbúnaðurinn Pay Analytics en hann er hannaður sem tól fyrir mannauðsstjóra og aðra stjórnendur sem vilja minnka eða útrýma kynbundnum launamun innan síns fyrirtækis. Hugbúnaðurinn mælir launamun og  lágmarkar viðbótar launakostnað við slíka framkvæmd auk þess að veita aukna yfirsýn. Algrímurinn að baki hugbúnaðinum byggir á bestun og tölfræði og hægt er að skorða einstaka launahækkanir og taka tillit til starfsumhverfis.

Í öðru sæti varð Platome Líftækni sem býður vísindamönnum uppá hágæða vörur til þess að rækta stofnfrumur og vefi án þess að nota dýraafurðir. Við framleiðsluna eru eingöngu notaðar útrunnar blóðflögur frá Blóðbankanum sem væri annars hent en með slíkri endurnýtingu má útbúa vöru á samkeppnishæfu verði og draga um leið úr magni sóttmengaðs úrgangs. Þá innihalda vörurnar ekki dýraprótein og eru því öruggari fyrir frumur úr mönnum en aðrar aðferðir. Eru þessar vörur nánast fullþróaðar og tilbúnar fyrir markað innan skamms.

Þriðju verðlaun hlaut sprotafyrirtækið ZETO, sem hefur síðastliðin ár þróað og prófað lífræna sápu- og húðvörulínu, þar sem þaraþykkni er notað í stað vatns, svonefndar serumhúðvörur. Vörurnar eru án fylliefna og kemískra aukaefna og er  stefnt að því að koma fyrstu vörum fyrirtækisins á markað fyrir árslok 2016.

Kjarninn og Nova stóðu fyrir vali fólksins sem er opin kosning, en þá viðurkenningu hlaut fyrirtækið Tipster. Önnur aukaverðlaun hlutu Icelandic Lava Show frá Advel, Tipster frá Berninger Finance og Lífvera frá Nova.

Keppninni í ár bárust um 200 hugmyndir og á bak við þær stóðu um 400 einstaklingar. Keppnin hefur staðið yfir í tæpa tvo mánuði þar sem þátttakendur hafa sótt námskeið og fengið þjálfun í mótun viðskiptahugmynda. Gulleggið sem stofnað var árið 2007 var fyrsti formlegi vettvangurinn til að þróa áfram hugmyndir sem spruttu upp innan háskólanna.

Framkvæmd keppninnar er í höndum Icelandic Startups (áður Klak Innovit) en verkefnastjórn keppninnar skipa 14 sjálfboðaliðar frá samstarfsháskólunum; HR, HÍ, LHÍ og Bifröst. Bakhjarlar Gulleggsins eru Landsbankinn, Advel lögmenn, Alcoa Fjarðaál, KPMG og Nova auk fjölda annarra samstarfsaðila.

Nánari upplýsingar um Gulleggið má finna á www.gulleggid.is

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta