9. mars 2015

Sigurvegarar Gulleggsins 2015

Úrslit í frumkvöðlakeppninni Gullegginu eru nú ljós. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti Gulleggið 2015 við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands, laugardaginn 7. mars.
 
1. sæti – Strimillinn
Upplýsingar um matvöruverð á Íslandi eru óaðgengilegar og það bitnar á samkeppni. Markmið Strimilsins er að opna þessar upplýsingar upp á gátt. Þú tekur mynd af innkaupastrimlinum og sendir okkur í gegnum vef eða app. Vöruverðið er lesið og skrásett og gert öllum aðgengilegt, þú færð yfirlit yfir þín innkaup og ábendingar um hvernig þú getur sparað.
 
Verðlaun: 1.000.000 kr. frá Landsbankanum og Gulleggið, leiðtogaþjálfun frá Dale Carnige og aukaverðlaun frá Nova
 
2. sæti – Mekano ehf.
Mekano ehf. er nýstofnað sprotafyrirtæki. Hugmyndafræði okkar byggir meðal annars á þróun nýrrar tækni á fjöltengjum með sérstaka áherslu á aðgengilega, einfalda og stílhreina hönnun. Til að ná þessu markmiði hefur Mekano ehf. komið fram með brautryðjandi tækninýjungar með hugmyndaríkum og frumlegum nálgunum, þar sem vandamál við nútíma notkun eru leyst. Mekano ehf. býður upp á fjölbreytt úrval eininga til samsetningar. Þar á meðal tengla, USB hleðslueininga, spennubreyta og fleira.
 
Verðlaun: 500.000 kr. frá Landsbankanum, sérstök aukaverðlaun frá eftirtöldum aðilum: Advel lögmenn í formi lögfræðiaðstoðar, útflutningsþjónusta að verðmæti 250.000 kr frá Íslandsstofu og ráðgjöf frá KPMG.
 
3. sæti -  Crowbar Protein
Síðan síðasta sumar hefur sprotafyrirtækið Crowbar Protein unnið að því að klára vöruþróun á sinni fyrstu vöru, orkustykkinu Jungle Bar. Eftir þónokkra tilraunastarfsemi með kokkum og matarsérfræðingum, ótal smakkanir hjá almenningi, nokkuð fjölmiðlafár og almenn skemmtilegheit, fer að styttast í að fyrirtækið verði tilbúið til að sýna sínu fyrstu vöru. Þegar sá dagur kemur, eftir sirka tvo mánuði, mun Jungle Bar verða fyrsta evrópska orkustykkið, sem inniheldur sjálfbært prótein úr skordýrum
 
Verðlaun: 300.000 kr. frá Landsbankanum.
 
Námsefnisbankinn hlaut Hvatningarverðlaun Samtaka Atvinnulífsins og Future Habits hlaut verðlaunin Val Fólksins sem er samstarfsverkefni Kjarnans og Gulleggsins.
 
Keppninni í ár bárust um 250 hugmyndir og á bak við þær stóðu um 500 einstaklingar. Keppnin hefur staðið yfir í tæpa tvo mánuði þar sem þátttakendur hafa sótt námskeið og fengið þjálfun í mótun viðskiptahugmynda.

Tíu stigahæstu hugmyndirnar sem kepptu til úrslita voru:
 
Appsláttur - Appsláttur sem minnir þig á afsláttinn
e1 - Deilihagkerfi hleðslustöðva fyrir rafbíla
Future Habits – Smáforrit sem kennir krökkum á aldrinum þriggja til sjö ára næringarfræði með myndrænum hætti
Crowbar Protein -  Framleiða orkustykkið Jungle Bar sem nýtir prótein úr skordýrum
Mekano ehf. - Nýstárleg fjöltengi fyrir allar gerðir raftækja
Námsefnisbankinn - Safnar saman verkefnum útbúin af kennurum sem einfalt er að sækja og leggja fyrir
Rofar Technology ehf. - Endurhannar staðalinn fyrir stýringu ljósa og heimilistækja eins og Apple endurhannaði snjallsímann
Sparta - Veflausn sem aðstoðar fólk að finna, halda utan um og skrá tölfræði tengda íþróttaviðburðum
Strimillinn -  Kerfi til söfnunar og miðlunar upplýsinga um verðlag á dagvöru á Íslandi  
Verðgreinir - Einfalt kostnaðarbókhaldskerfi, hannað fyrir snjalltæki, sem er ætlað fyrir sjálfstætt starfandi verktaka
 
Gulleggið fór fyrst fram árið 2008 en síðan þá hafa um 2000 hugmyndir borist í keppnina. Fjölmörg starfandi fyrirtæki hafa stigið sín fyrstu skref í keppninni og má þar m.a. nefna Meniga, Controlant, Cooori, Karolina Fund, Róró og fleiri.
 
Gulleggið er haldið af Klak Innovit nýsköpunar og frumkvöðlasetri en verkefnisstjórn keppninnar skipa 14 sjálfboðaliðar frá samstarfsháskólunum HR, HÍ, LHÍ og Bifröst. Bakhjarlar Gulleggsins eru Landsbankinn, Advel lögmenn, Alcoa Fjarðaál, KPMG, Samtök Atvinnulífsins og Nova auk fjölda annarra samstarfsaðila.

 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta