6. september 2023

Sigurður Líndal er látinn

Sigurður Líndal, lagaprófessor, er látinn 92 ára að aldri.

Sig­urður fædd­ist 2. júlí árið 1931, son­ur hjón­anna Þór­hild­ar Páls­dótt­ur Briem og Theo­dórs B. Lín­dal. Hann lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík árið 1951 og BA-prófi í lat­ínu og mann­kyns­sögu frá Há­skóla Íslands 1957, embætt­is­prófi í lög­fræði frá HÍ 1959 og MA-prófi í sagn­fræði frá sama skóla 1968.

Sig­urður lagði stund á nám í rétt­ar­sögu við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla árið 1960, við Há­skól­ann í Bonn í Þýskalandi 1961-1962 og Uni­versity Col­l­e­ge í Oxford árið 1998 og 2001. Hann lauk einka­flug­manns­prófi árið 1967.

Sig­urður átti fjöl­breytt­an starfs­fer­il að baki. Hann var dóm­ar­a­full­trúi við embætti Borg­ar­dóm­ar­ans í Reykja­vík árin 1959 til 1960 og 1963 til 1964 og hæsta­rétt­ar­rit­ari við Hæsta­rétt Íslands frá ár­inu 1964 til 1972. Hann var lektor við laga­deild Há­skóla Íslands árið 1967 og pró­fess­or við deild­ina árin 1972 til 2001. Sig­urður var gisti­pró­fess­or við Uni­versity Col­l­e­ge í London haustið 1982, sat í skatt­sekta­nefnd 1965 til 1979, var dóm­ari í Fé­lags­dómi 1974 til 1980 og for­stöðumaður Laga­stofn­un­ar HÍ 1976 til 2001. Þá var hann árið 2007 ráðinn pró­fess­or við Há­skól­ann á Bif­röst og starfaði þar um skeið. Sigurður var svo gerður að heiðurs­doktor við laga­deild HÍ árið 2008.

Sig­urður var for­seti Hins ís­lenzka bók­mennta­fé­lags 1967 til 2015 og sat í stjórn Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar frá ár­inu 1996 til 2006. Hann var ráðunaut­ur land­stjórn­ar Fær­eyja í sjálf­stæðismál­um 1997 til 2000. Frá ár­inu 2002 til 2005 var hann formaður rann­sókn­ar­nefnd­ar til að rann­saka flug­slys í Skerjaf­irði. Hann var varamaður í Flug­slysa­nefnd frá 2009 til 2013.

Auk fjöl­breytts starfs­fer­ils á vett­vangi lög­fræði, sagn­fræði, stjórn­mála­fræði og bók­mennta sat Sig­urður jafnframt í ýms­um nefnd­um og stjórn­um, þar á meðal dóm­nefnd­um. 

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Sig­urðar er María Jó­hanns­dótt­ir, fv. skrif­stofu­stjóri heim­speki­deild­ar HÍ. Hann læt­ur eft­ir sig tvær dæt­ur, Krist­ínu og Þór­hildi.

Er fjölskyldu Sigurðar vottuð dýpsta samúð.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta