30. apríl 2020

Sigrún Gunnarsdóttir hlýtur framgang sem prófessor við skólann

Sigrún Gunnarsdóttir hefur hlotið framgang sem prófessor við Háskólann á Bifröst.

Sigrún er hjúkrunarfræðingur og lauk doktorsprófi á sviði lýðheilsu, stefnumótunar og stjórnunar við London School of Hygiene & Tropical Medicine árið 2005. Sigrún hefur kennt þjónandi forystu við Háskólann á Bifröst frá árinu 2013 og hefur umsjón með meistaranámi í Forystu og stjórnun með áherslu á þjónandi forystu. Sigrún hefur verið í forsvari fyrir Þekkingarsetur um þjónandi forystu um árabil og leitt fræðastarf í greininni hérlendis.

Auk þess að kenna við Háskólann á Bifröst hefur Sigrún kennt við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Norræna lýðheilsuskólann í Gautaborg. Þá var hún varaþingmaður á Alþingi á árunum 2013 til 2017 og aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra árið 2017. Sigrún starfaði sem hjúkrunarfræðingur og stjórnandi í heilsugæslu og á Landspítala um árabil, var verkefnisstjóri heilsueflingar í heilbrigðisráðuneytinu, gæðastjóri Landspítala og deildarstjóri á starfsmannaskrifstofu spítalans. Sigrún starfaði sem formaður Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga 1992-1993, hefur verið ráðgjafi hjá skrifstofu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Kaupmannahöfn frá árinu 2003 og var formaður Krabbameinsfélags Íslands 2016-2017.

Auk þess að hafa leitt þróun í kennslu þjónandi forystu við skólann hefur Sigrún tekið þátt í og leitt fjölda rannsóknarverkefna, hérlendis og erlendis, á sviði þjónandi forystu og um starfsumhverfi og vellíðan í starfi. Meðal núverandi rannsóknarverkefna Sigrúnar er rannsókn um þjónandi forystu í stjórnsýslu og um innleiðingu þjónandi forystu á vettvangi sveitarfélaga.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta