Sérstaða laganáms á Bifröst liggur í viðskiptaáherslunni 30. mars 2021

Sérstaða laganáms á Bifröst liggur í viðskiptaáherslunni

Það er fallegt í Fljótshlíðinni, líka á rysjóttum mánudegi snemma í mars, þegar skiptast á skin og skúrir í bókstaflegri merkingu. Þegar rennt er í hlað í Tungu birtist Elín Jónsdóttir úti í glugga með síma í hönd. Hún er á fundi en slítur honum þegar fólk er komið að hitta hana í raunheimi. Hún er líka búin að undirbúa gestakomuna því bökunarilminn leggur út á hlað. En við byrjum á að setja Elínu við hljóðnema og myndavél og kaffið bíður.

Elín tók við starfi deildarforseta lagadeildar Háskólans á Bifröst um áramótin. Undanfarin tæp fjögur ár hefur laganámið við skólann verið hluti af félagsvísindadeild en haustið 2020 var ákveðið að skilja deildirnar aftur að og tekur sá aðskilnaður formlega gildi frá og með næstu haustönn.

Elín er í upphafi samtals beðin um að segja frá því hver séu að hennar mati helstu sóknarfærin í þessari breytingu: „Markmiðið með að sameina deildirnar á sínum tíma var að auka samstarf milli deilda og það tókst vissulega eins og lagt var upp með. Nú sjáum við hins vegar sóknarfæri í því að beina sjónum með ákveðnari hætti á laganámið af því að það er nú einu sinni þannig að það sem maður veitir athygli það vex og dafnar.“

Lögfræði er nú kennd til prófs í fjórum háskólum á Íslandi. Það er því mikilvægt fyrir fólk sem hyggur á laganám að átta sig á sérstöðu námsins á hverjum stað og Elín telur að hver þessara skóla hafi sína sérstöðu. „Sérstaða lagadeildarinnar á Bifröst er að vera lagadeild í viðskiptaháskóla. Við kennum sem sagt viðskiptalögfræði og það hefur algera sérstöðu hér á landi. Þetta er nám að norrænni fyrirmynd og grunnnámið er til BS-gráðu. Þar fléttast saman viðskiptagreinar og lögfræðigreinar og þannig myndast þverfagleg þekking sem ætti að nýtast mjög vel í störfum í viðskiptalífinu, í fyrirtækjum, í opinbera geiranum og jafnvel í þriðja geiranum, þ.e. hinum ófjárhagsdrifna. Sérstaðan er því skýr og gaman að byggja á henni í því uppbyggingar- og þróunarstarfi sem við erum að fara í.“

Heimsfaraldur breytti litlu fyrir nemendur á Bifröst

Sérstaða laganámsins við Háskólans á Bifröst felst þó ekki eingöngu í viðskiptaáherslunni heldur er allt nám við skólann byggt upp með öðrum hætti en í öðrum háskólum: „Við erum með fjarkennslu og vendikennslu og mjög mikinn sveigjanleika þannig að nemendur geta stundað nám á þeim tímum sem þeim hentar hvar sem er á landinu, reyndar hvar sem er í heiminum, og hvernig sem fjölskyldu- eða vinnuaðstæður þeirra eru. Að sjálfsögðu þurfa nemendur að geta gefið sér rými fyrir nám sem er ekki alltaf auðvelt en þegar fólk hefur áhuga á því og tök á að gefa náminu pláss er hægt að hlusta á fyrirlestra á kvöldin, um helgar eða þegar hentar. Svo hitta nemendur samnemendur sína tvisvar á önn á vinnuhelgum á Bifröst og taka auk þess þátt í umræðufundum á Teams þar sem meðal annars eru leyst raunhæf verkefni. Þetta er mjög fjölbreytt nám. Ég held að það höfði til ungs fólks vegna þess að við notum tækni sem þau eru mjög vön og þjálfuð í að nota en námið höfðar líka til eldra fólks vegna þess að það býður upp á sveigjanleika, til dæmis ef fólk er með fjölskyldu og kannski í vinnu. Þessi sérstaða okkar á Bifröst hefur svo nýst sérstaklega vel undanfarið ár þar sem minni breytingar þurfti að gera á fyrirkomulagi kennslu hjá okkur en víðast hvar annars staðar þegar hér voru innleiddar samkomukmarkanir.“   

Auk fjarkennslufyrirkomulagsins er lögð mikil áhersla á verkefnavinnu og samvinnu nemenda við Háskólann á Bifröst. „Samvinna er einmitt eitt af gildum skólans og það er mjög gaman að byggja á því. Það er því mikið um hópverkefni og paraverkefni í náminu og við reynum að tryggja fjölbreytni þannig að fólk fær bæði að velja sér félaga í hópverkefni en er líka stundum sett í hópa sem það velur ekki sjálft, bara eins og í lífinu sjálfu.“

Þessa daga er Elín sérstaklega spennt fyrir svokölluðum misserisverkefnum sem tíðkast við Háskólann á Bifröst og eru einmitt meðal þess sem skapar sérstöðu skólans. Misserisverkefni eru hópverkefni sem unnin eru með leiðbeinanda og lýkur svo með vörn þar sem nemendur kynna verkefni sín fyrir framan dómnefnd. „Ég veit að nemendum finnst þetta gefandi og skemmtilegt og mikil vinna. Ég tek þátt í þessu í fyrsta sinn nú á vormisseri og hlakka mikið til.“

Samfélagsbreytingar hafa áhrif á úrlausnarefni lögfræðinnar

Elín tók grunninn í lögfræði við Háskóla Íslands og svo meistaragráðu í lögum frá Duke-háskóla í Bandaríkjunum. Þá er hún með MBA-próf frá viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi. Hún hefur lengst af unnið í fjármálageiranum og í tengslum við viðskiptalíf, meðal annars setið í stjórnum margra fyrirtækja. „Ég hef miklu meira verið í tengslum við störf lögfræðinga frá þessu sjónarhorni heldur en gegnum réttarkerfið og það er sem betur fer þannig að tiltölulega lítill hluti af þeim lögfræðilegu úrlausnarefnum sem verða til í samfélaginu eru leyst í réttarkerfinu og við viljum auðvitað frekar sjá að þau séu leyst jafnóðum í störfum fólks.“

Þessi aðkoma Elínar að lögfræði hefur því augljóslega áhrif áhuga hennar á sérstöðu laganámsins á Bifröst, auk þess sem þetta hlýtur að móta það mark sem hana langar að setja á laganámið við skólann. „Mig langar að gera hvort tveggja að viðhalda því sem hefur verið byggt upp við skólann og bæta við áherslum sem mér finnst skipta máli að lögfræðingar samtímans kunni vel skil á. Við byggjum á 20 ára sögu sem er heilmikið og mjög margt hefur verið afar vel gert. Þarna er ég að tala um áhersluna á viðskiptalögfræði þar sem ég tel að við getum gert enn betur með því að kenna greinar lögfræðinnar sem skipta viðskiptalífið miklu máli einmitt núna, svo sem persónuvernd, upplýsingaöryggi, samkeppnisrétt og nýsköpunar- og tæknirétt. Auk þess er ég að horfa á áherslumál sem mér finnst skipta samfélagið miklu máli einmitt núna, annars vegar sjálfbærni og samfélagsábyrgð og hins vegar nýsköpun og tækni. Samfélagið er að breytast svo hratt og það eru ytri orsakir  sem valda því. Annars vegar eru breytingar í náttúrulegu umhverfi okkar sem munu hafa mjög mikil áhrif á það hvernig þarf að reka fyrirtæki. Hins vegar er tæknin að umbreyta því hvernig við vinnum og við hvað við vinnum og það segir sig sjálft að þessar breytingar hafa áhrif á þau úrlausnarefni sem lögfræðingar framtíðarinnar þurfa að fást við.“

Nýta þekkingu til að gera gagn

Viðtalið við Elínu er tekið 8. mars og því ekki úr vegi að víkja að jafnrétti kynjanna áður en samtalinu er slitið. „Þetta er málefni sem hefur verið mér hugleikið alveg síðan ég var stelpa og einkennir held ég konur sem voru að alast upp þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti. Þetta málefni hefur sett talsverðan svip á það hvernig ég hef varið frítíma mínum því þegar ég hef haft tækifæri til þess að taka þátt einhverju góðu starfi utan vinnu hefur það iðulega tengst jafnréttismálum, allt frá því að taka þátt í lögfræðiráðgjöf, kvennaráðgjöf með laganemum, til þess sem ég hef verið að gera síðustu árin sem er að vinna með Kvennaathvarfinu. Þar sat ég sat í stjórn lengi og tók síðan að mér stjórnarformennsku í byggingarfélagi Kvennaathvarfsins sem hefur verið afskaplega skemmtilegt og gefandi verkefni.“

Elín er að lokum spurð um framtíðaróskir sínar fyrir laganema við Háskólann á Bifröst: „Ég myndi kannski vilja að þau fengju sömu tækifæri og ég hef fengið, að vinna að einhverju sem maður virkilega brennur fyrir, nýta þekkinguna sem maður aflar sér í námi til þess að gera gagn.“

Það er kominn tími til að setjast að kaffiborðinu og njóta kökunnar sem ilmar enn og kaffisopa áður en við höldum út að skoða útihúsin í Tungu með Elínu og smella af henni mynd. Við kveðjum svo Elínu sem ætlar að ljúka vinnudeginum í Fljótshlíðinni enda getur hún, rétt eins og nemendur hennar, sinnt stórum hluta vinnu sinnar þar sem henni hentar best á hverjum tíma.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta