Seðlabanki Svíþjóðar veitir nýrri rannsókn veglegan styrk 3. nóvember 2021

Seðlabanki Svíþjóðar veitir nýrri rannsókn veglegan styrk

Þverþjóðlegt rannsóknaverkefni í mannauðsstjórnun, sem dr. Arney Einarsdóttir, dósent við viðskiptadeild, stýrir fyrir Íslands hönd, hlaut nýverið 4,3 milljónir sænskra króna í styrk úr afmælissjóði Seðlabanka Svíþjóðar Riksbankens Jubeliumfond). Jafngildir styrkurinn um 65 milljónum íslenskra króna.

Hópur sex leiðandi fræðimanna á Norðurlöndum
Verkefnið snýr að sérkennum og seiglu mannauðsstjórnunar á Norðurlöndum. Um þverþjóðlega langtímarannsókn er að ræða og er markmiðið að kortleggja gangverk norræna líkansins á þessu sviði mannauðsmála.
 
Borið verður saman hvað er líkt og ólíkt á þessu sviði með Norðurlöndunum fimm, þróunin yfir tíma skoðuð, auk þess sem fyrstu niðurstöður verða settar fram er varða seiglu norræna líkansins í ljósi norrænna viðbragða við Covid-19 heimsfaraldrinum. 
Að rannsókninni kemur hópur sex leiðandi fræðimanna á þessu sviði. Þeir eru auk Arneyjar Dr. Stefan Tengblad, prófessor við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð og er hann jafnframt verkefnisstjóri rannsóknarinnar, Dr. Frans Bevort, dósent við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS) í Danmörku, Dr. Paul N. Gooderham, prófessor við Viðskiptaháskólann í Noregi, Dr. Ali Kazemi, prófessor við Háskóla Vesturlands (University West) í Svíþjóð og Dr. Adam Smale, prófessor við Háskólann í Vaasa í Finnlandi. 
 
Þá gegnir Dr. Henrik Holt Larsen, prófessor emeritus við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn ráðgjafarhlutverki við hópinn.
 
CRANET auðveldar alþjóðlegan langtímasamanburð
 
Um samfélagsleg áhrif rannsóknarinnar bendir rannsóknarhópurinn á að árangur samskipta á vinnumarkaði á landsvísu, sem og stjórnun mannauðs (HRM) í fyrirtækjum og stofnunum hefur áhrif á atvinnulíf og velferð milljóna manna á Norðurlöndum.
Að sögn Arneyjar verður safnað megindlegum og eigindlegum samanburðargögnum er lúta að lykilspurningum verkefnisins. 
„Afar ánægjulegt var fyrir rannsóknarhópinn að hljóta þennan styrk. Megindlegu gögnin koma úr Cranet rannsókninni, staðlaðri langtímarannsókn frá 1989 sem nær til yfir 40 landa og auðveldar til muna langtíma- og þverþjóðlegar greiningar. Þá munum við einnig nýta þjóðhagfræðileg gögn sem og eigindleg gögn sem aflað verður líka í fyrirtækjum og stofnunum,“ segir Arney.
Enn fremur verða gerðar eigindlegar tilviksrannsóknir í þremur atvinnugreinum og þjónar þessi hluti rannsóknar þeim tilgangi að veita dýpri skilning á ferlum sem liggja til grundvallar þeim áhrifum sem starfshættir í fyrirtækjum og stofnunum urðu fyrir vegna Covid-19 faraldursins á Norðurlöndum.  

Markmiðið að stuðla að aukinni seiglu

Arney bendir jafnframt á að niðurstöðum verkefnisins verði komið á framfæri við lykilhagsmunaaðila á sviði mannauðsmála, jafnt innan fræðasamfélagsins sem utan. „Þess er vænst að niðurstöðurnar geti nýst í stefnumarkandi ákvörðunartöku til að auka seiglu á sviði mannauðsmála á Norðurlöndum,“ segir Arney og bætir því svo að lokum við, að gagnaöflun á vegum CRANET standi einmitt yfir þessa dagna á meðal mannauðsstjóra hér á landi. „Þátttaka þeirra í CRANET undanfarin ár er ákaflega mikilvæg, ekki hvað síst núna.“

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta