16. febrúar 2024

Samþykkt að ræða við HVIN

Stjórn Háskólans á Bifröst hefur samþykkt að leita eftir samningum við Háskóla-, vísinda og nýsköpunarráðuneytið (HVIN) um óskert fjárframlög gegn niðurfellingu skólagjalda. Þetta var ákveðið á fundi stjórnarinnar nú síðdegis.

Sjálfstætt starfandi háskólum hér á landi býðst að fá óskert fjárframlög frá ríkinu gegn niðurfellingu skólagjalda. Háskólinn á Bifröst er á meðal þeirra þriggja háskóla sem þetta stendur til boða ásamt Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands.

Stjórn Háskólans á Bifröst kom til fundar í dag vegna málsins og var samþykkt að leita eftir samningi við ráðuneytið um óskert fjárframlög gegn niðurfellingu skólagjalda.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, segir stjórn háskólans líta málið jákvæðum augum. „Með því að gera sjálfstætt starfandi háskólunum kleift að leggja niður skólagjöld, eykst jafnræði á milli háskólanna hvað námsval nemenda snertir,“ segir hún og bendir á að það muni styrkja til mikilla muna stöðu Háskólans á Bifröst sem eins fremsta fjarnámsháskóla landsins. Á hinn bóginn sé staða Háskólans á Bifröst sem fjarnámsháskóla um margt ólík hinum háskólunum innan nýja reiknilíkansins og mikilvægt sé að samningar við ráðuneytið taki tillit þess.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta