22. febrúar 2024

Samtal við nemendur

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, átti gott samtal við nemendur við Háskólann á Bifröst í morgun á fjarfundi sem efnt var til vegna fyrirhugaðrar niðurfellingar skólagjalda. Fundinn sáðu einnig Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor, ásamt nokkrum starfsmönnum úr stjórnsýslu háskólans.

Ráðherra rakti í meginatriðum tilboð ráðuneytins til sjálfstætt starfandi háskóla, hvernig því sé ætlað að stuðla að aukna jafnrétti til náms gegn niðurfellingu skólagjalda. Eins og málum er háttað hafa sjálfstætt starfandi háskólar fengið 75% af fullri fjármögnun ríkisháskólanna, en gegn niðurfellingu skólagjalda geta þeir nú samið við ráðuneytið um óskert framlög úr ríkissjóði.

Í samtali ráðherra við nemendur kom m.a. fram að ráðuneytið muni í þeim viðræðum sem framundan eru, taka tillit til mismunandi aðstöðu háskóla gagnvart niðurfellingu skólagjalda. Í þessari afstöðu ráðuneytisins felst að sögn ráðherra, vilji til þess að koma til móts við háskóla sem sjái fram á þjónustuskerðandi tekjumissi, í fyrirhuguðum samningaviðræðum.

Ráðherra tók einnig fram að heildarframlög ríkisins til háskóla verði aukin. Íslenska háskólastigið sé á meðal þeirra verst fjármögnuðu innan OECD og mikilvægur liður í þeirri heildarendurskoðun sem nú standi yfir á vegum ráðuneytisins sé raunhækkun á heildarfjárframlögum háskólanna.

Þess má svo geta að samningar um óskert fjárframlög taka gildi í haust og fyrsta skólagjaldalausa misserið gengur í garð á haustönn 2024. Komandi sumarönn, verður þannig sú síðasta sem innheimt verða skólagjöld af, gangi samningar eftir um niðurfellingu þeirra gegn óskertum fjárframlögum.

Umræður á fundinum voru líflegar og nýttu nemendur einnig tækifærið og spurðu ráðherra um annnað það sem brennur á þeim, s.s. varðandi Menntasjóð námsmanna og framfræslu stúdenta svo að dæmi séu nefnd.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta