
Samtal um skapandi greinar: Hreyfiafl skapandi og skáldlegra framtíðarsýna
Rannsóknasetur skapandi greina (RSG), í samstarfi við CCP, býður til morgunfundar undir yfirskriftinni Samtal um skapandi greinar: Hreyfiafl skapandi og skáldlegra framtíðarsýna fimmtudaginn 8. maí kl. 8:30–10:00 í húsakynnum CCP í Grósku, 3. hæð, að Bjargargötu 1, 102 Reykjavík. Fundinum verður streymt og CCP býður gestum upp á morgunverð og kaffi.
Sætaframboð er takmarkað og skráningu lýkur kl. 12:00, miðvikudaginn 7. maí.
👉 Skráning á staðfundinn fer fram hér.
Á fundinum verður varpað ljósi á hvernig skapandi og skáldleg sýn á framtíðina getur orðið að hreyfiafli breytinga í samtímanum. Hvernig getum við ímyndað okkur nýjar og fjölbreyttar framtíðir á tímum óvissu og samfélagslegra áskorana – og hvernig geta skapandi greinar lagt sitt af mörkum til að opna fyrir þessar sýnir?
Dagskráin spannar þrjú erindi:
-
Bergsveinn Þórsson, dósent við Háskólann á Bifröst, kynnir sýninguna Beyond Barcode, sem hann vann að í samstarfi við rannsóknarverkefnið CoFutures við Oslóarháskóla og Interkulturelt Museum í Osló.
-
Dögg Sigmarsdóttir, verkefnastjóri og sérfræðingur í lýðræðisþátttöku og sjálfbærni, fjallar um aðferðafræði samsköpunar og hvernig megi skapa samfélagsrými sem stuðla að velsæld og framtíðarvon.
-
Þorgerður Ólafsdóttir, myndlistarkona og rannsakandi, segir frá sýningarverkefninu Brot úr framtíð, sem var m.a. hluti af Listahátíð í Reykjavík og varpar ljósi á samband okkar við náttúru og hamfarir.
Í kjölfar erindanna lýkur streyminu og opnað verður fyrir umræður meðal gesta á staðnum.
Sætaframboð er takmarkað og skráningu lýkur kl. 12:00, miðvikudaginn 7. maí.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta