Samfélagsþátttaka aukin með það að markmiði að styrkja byggð 20. september 2018

Samfélagsþátttaka aukin með það að markmiði að styrkja byggð

Hátt í 40 þátttakendur víða að komu saman á Borgarfirði eystri nú í lok ágúst en þar fór fram upplýsingafundur um evrópska samstarfsverkefnið INTERFACE er snýr að aðgerðum í byggðaþróun og stuðningi við brothættar byggðir. Það er Byggðastofnun sem leiðir þetta tveggja ára verkefni í  samstarfi við Háskólann á Bifröst auk erlendra  þátttakenda  frá Búlgaríu, Grikklandi, Írlandi og Ítalíu. Hlaut verkefnið á síðasta ári styrk frá Erasmus+ Styrkjaáætlun Evrópusambandsins.

Á Borgarfirði eystri fór einnig fram kennsla fyrsta hluta nýrrar námsskrár sem nú er í þróun og miðar að því að efla verkefnisstjóra. Fjallað var um leiðir til að virkja íbúa og auka samfélagsþátttöku með það að markmiði að styrkja byggð og bæta í flóru atvinnulífs og menningar.

„Það var afskaplega gaman að koma á staðinnn og hitta þar fólk víðsvegar að af landinu sem er tilbúið að vinna að uppbyggingu sinnar nærsveitar og samfélags. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og þá er svo gagnlegt að við lærum hvert af öðru,“ segir Kári Joensen,  lektor  og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Bifröst sem leiðir verkefnið fyrir hönd háskólans. Kári hélt erindi á fundinum er bar heitið Símenntun  til  stuðnings  byggða-  og  samfélagsþróun en við símenntun Háskólans á Bifröst hafa um árabil verið í boði fjölbreytt námskeið í fjarnámi fyrir einstaklinga og vinnustaði um land allt.

Kári segir framundan næstu misserin að kennsla haldi áfram og þátttakendur vinni að verkefnum í sinni heimabyggð. Þá verði kennsluefnið sem nú er í þróun gert  aðgengilegt gegnum vefgátt svo hægt sé að nýta það að hluta eða í heild og aðlaga að ólíkum viðfangsefnum, t.d. tengdum atvinnu- eða byggðaþróun. Kennsluefnið byggir að hluta til á niðurstöðum úr fyrra samstarfsverkefni, FIERE, og er ætlað að efla færni á sviðum nýsköpunar og frumkvöðlastarfs.

Á myndinni gefur að líta forsvarsmenn og verkefnisstjóra verkefnisins samankomna.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta