Sameining menningarstofnana

Sameining menningarstofnana

14. maí 2024

Sameining menningarstofnana

Meistaranám í menningarstjórnun og Tónlistarmiðstöð standa fyrir sameiginlegum umræðufundi um sameiningu menningarstofnana fimmtudaginn 23. maí nk. í húsnæði tónlistarmiðstöðvarinnar í Hafnarstræti 6, 2. hæð, kl. 15:00.

Sameiningaráform menningarstofnana hafa verið mjög til umræðu undanfarin misseri. Á sveitastjórnarstiginu hafa héraðskjalasöfn verið í skotlínunni og víða er ýmis önnur menningarstarfsemi í alvarlegri endurskoðun. Ekki er langt síðan Leik­fé­lag Ak­ur­eyr­ar, Sin­fón­íu­hljóm­sveit Norður­lands og Menn­ing­ar­húsið Hof sameinuðust í eitt félag á Akureyri eða MAK en tíu ár eru frá því að Árbæjarsafn, Aðalstræti, Sjóminjasafnið, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Viðey sameinuðust í Borgarsögusafn Reykjavíkur. Á vegum ríkisins er stefnt að sameiginlegum rekstri Þjóðleikhúss og óperu með Íslenska dansflokkinn sem mögulega viðbót í framhaldinu. Tónlistarmiðstöð sem opnaði formlega í síðasta mánuði varð til með sameiningu Útón og Tónverkamiðstöðvar auk þess sem ýmsir tónlistarsjóðir voru á sama tíma sameinaðir og settir í umsjá nýrrar sameinaðrar miðstöðvar. 

Á umræðufundinum verða ýmsar hliðar sameiningar skoðaðar, kostir og gallar, og spurningum varpað fram um tækifæri sem kunna að leynast við frekari sameiningar. Er það svo að það sem lítur vel út í töflureikni eða „menningarstefnu KPMG“ sé endilega raunhæft eða ákjósanlegt í verki? Er frumkvæðiskraftur smárra eininga mikilvægari en faglegur styrkur sameinaðra krafta? Hvernig hverfa verkefni í flutningi á milli stofnana? Hvenær er lítið of lítið og stórt of stórt? 

Frummælendur fundarins eru tveir eða Finnur Bjarnason, verkefnisstjóri í menningarmálaráðuneytinu, sem fjallar um undirbúning að stofnun Þjóðaróperu og sameiginlegs félags um óperu og Þjóðleikhúss. Þá fjallar Jón Snorri Snorrason, dósent og kennari í menningarstjórnun, um samrunakenningar m.a. út frá nýlegum dæmum um sameiningu háskóla, í erindi sem nefnist „Samruni skipulagsheilda: Jákvæð samlegð og neikvæð“. 

Að fyrirlestrum loknum taka við pallborðsumræður, sem Signý Leifsdóttir, sérfræðingur hjá Tónlistarmiðstöð tekur þátt í ásamt þeim Finni og Jóni Snorra. 

Fundar- og umræðustjóri fundarins er Njörður Sigurjónsson, prófessor við Háskólann á Bifröst og fagstjóri meistaranáms í menningarstjórnun.

Boðið verður upp á kaffi og eru öll velkomin.

 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta