3. janúar 2024

RBS birtir nýjar rannsóknir

Tvær greinar frá Rannsóknasetri byggða- og sveitarstjórnmála (RBS) hafa verið birtar í sérhefti Íslenska þjóðfélagsins um byggðarannsóknir (2023, Bnd. 14, nr. 2).

Að greinunum standa dr. Vífill Karlsson, prófessor og forstöðumann setursins og dr. Bjarki Þór Grönfeldt, lektor, við Háskólann á Bifröst. Snýr önnur greinanna að rannsókn sem gerð var á stöðu innflytjenda á vinnumarkaði á krepputímum eftir byggðamynstri og atvinnugreinum, en hin fjallar um sameiningar hreinna dreifbýlissveitarfélaga og þjónustu.

Það hefur verið áhyggjuefni að atvinnuleysi mældist hlutfallslega meira á meðal innflytjenda í þeim efnahagsþrengingum sem fylgdu heimsfaraldri COVID-19. Í rannsókninni, sem gerð var haustið 2020, er þannig borin saman annars vegar staða innflytjenda og hins vegar Íslendinga á vinnumarkaði. Markmiðið var að kanna hvort fyrrnefndi hópurinn hafi notið þess efnahagslega forskots sem tilteknir landshlutar og atvinnugreinar hafa jafnan skilað Íslendingum.

Stuðst er við gögn úr Íbúakönnun landshlutanna 2020, sem ríflega 10 þúsund íbúar tóku þátt í þar af rúmlega 1.200 innflytjendur. Helstu niðurstöður benda svo til þess að staða innflytjenda á atvinnumarkaði hafi verið verri en Íslendinga svo sem m.t.t. launa, atvinnuöryggis og atvinnuúrvals. Þá vakti athygli að innflytjendur í dreifbýli virtust vera ánægðari með búsetu sína en innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu eða öðru þéttbýli úti á landi. Því er sú ályktun dregin að innflytjendur hafi ekki notið svokallaðs borgarhagræðis (t.d. hærri launa í þéttbýli) eða velgengni sumra atvinnugreina (t.d. sjávarútvegs) að sama skapi og Íslendingar.

Í síðarnefndu rannsókninni er borin saman ánægja íbúa í annars vegar dreifbýlu sveitarfélagi og hins vegar í dreifibýli blandaðra sveitarfélaga m.t.t. hvort dreifbýlissamfélög njóti þess að vera hluti af stærri og hagstæðari heild eða hvort íbúar upplifi stöðu sína enn jaðarsettari og afskiptari. Stuðst var við gögn úr íbúakönnun landshlutananna frá árunum 2016, 2017 og 2020.

Þegar skoðaðir voru einstaka þættir í þjónustu sveitarfélagsins blasti við skýrt mynstur: Íbúar hreinna dreifbýlissveitarfélaga voru marktækt óánægðari með skipulagsmál, félagsþjónustu, tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar og gæði unglingastarfs. Íbúar hreinna dreifbýlisveitarfélaga voru almennt ánægðari með þjónustu síns sveitarfélags ef þau ráku ekki eigin skóla en þau dreifbýlissveitarfélög sem það gerðu voru með marktækt óánægðari íbúa gagnvart ýmissi annarri þjónustu.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta