11. júní 2023

Rannsóknasetur skapandi greina

Opinn kynningarfundur um stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina (RSG) verður í húsakynnum CCP í Grósku, þann 12. júní.

Meginhlutverk rannsóknasetursins verður að efla rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina með hliðsjón af þeirri fjölþættu samfélagsáhrifum sem þessi starfsemi leiðir af sér, s.s. samfara aukinni verðmætasköpun. Stofnaðilar eru Háskólinn á Bifröst, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum. Í stjórn setursins eiga einnig sæti fulltrúar frá Samtökum skapandi greina og menningar- og viðskiptaráðuneyti.

Á fundinum verður kynnt lokaskýrsla undirbúningsstjórnar RSG, Sköpunarkrafturinn - orkugjafi 21. aldar, en í skýrslunni er gert grein fyrir þeirri vinnu sem lögð hefur verið í undirbúning að stofnun rannsóknasetursins allt frá árinu 2021 og leggja mun grunn að starfsemi þess fyrstu þrjú árin.

Skapandi greinar eru vaxandi drifkraftur í verðmætasköpun og samfélagslegri þróun hér á landi, en fólk sem starfar í skapandi greinum hagnýtir menningu til verðmætasköpunar; hvort heldur efnahagslegrar eða samfélagslegrar.

Til skapandi greina teljast m.a. bókmenntir, fjölmiðlun, hönnun og arkitektúr, kvikmynda og sjónvarpsþáttagerð, listnám, safnastarf og miðlun menningararfs, myndlist og starfsemi gallería, sviðslistir, tónlist, tölvuleikjagerð og hugbúnaðarþróun sem þeim tengist og starfsemi auglýsingastofa.

Ör þróun hefur einkennt gagnaöflun og rannsóknir á hagrænum sem og menningar- og samfélagslegum áhrifum skapandi greina á alþjóðlegum vettvangi undanfarin ár. Með stofnun RSG er markmiðið því einnig að stuðla að sambærilegri þróun hér á landi.  

Fjármögnun RSG verður með þeim hætti að menningar- og viðskiptaráðuneyti leggur því til  20 m.kr. á ári næstu þrjú árin.

Þá leggur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti rannsóknasetrinu til 10 m.kr. fyrir árið 2023. Úthlutun úr Samstarfssjóði háskólanna til verkefnisins nemur 21 m.kr., en það framlag er eyrnarmerkt samstarfi Háskólans á Bifröst, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands að aukinni rannsóknavirkni á sviði menningar og skapandi greina á meistara- og doktorsstigi.

Opni kynningarfundurinn fer, eins og áður segir, fram þann 12. júní, kl. 15:00-16:00 í höfuðstöðvum CCP, 3.hæð Grósku, Bjarkargötu 1 í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Fundurinn er öllum opinn. Skráning fer fram hér: Eflum skapandi greinar - Opinn kynningarfundur (google.com)

Nálgast má skýrsluna á www.bifrost.is/skopunarkrafturinn


Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta