Ráðherrarnir Lilja Alfreðsdóttir, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir í góða veðrinu í gær í Reykjanesbæ ásamt Margréti Jónsdóttur Njarðvík, rektori, Önnu Hildi Hildbrandsdóttur, fagstjóra og Nirði Sigurjónssyni, deildarforseta félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst.
11. ágúst 2021Rannsóknarsetur skapandi greina í undirbúningi á Bifröst
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, undirritaði í gær ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, samning vegna Rannsóknaseturs skapandi greina, RSG.
Samningurinn er á meðal aðgerða, sem ríkisstjórnin samþykkti á sumarfundi sínum í Reykjanesbæ í gær, til stuðnings skapandi greinum og felur Háskólanum á Bifröst að annast nauðsynlegan undirbúning vegna stofnunar rannsóknasetursins. Samstarfsaðilar Háskólans á Bifröst vegna málsins eru í Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Listaháskóli Íslands og Samtök skapandi greina. Rannsóknarsetrið verður starfrækt á Bifröst.
Markmiðið með stofnun RSG er að efla fræðilegar og hagnýtar rannsóknir í þeim ört vaxandi atvinnuvegi sem skapandi greinar eru. Einnig er stefnt að því að efla gæðarannsóknir á þessu sviði og skapa tækifæri til alþjóðlegs rannsóknasamstarfs og samanburðar innan þessara greina.
Á meðal undirbúningsverkefna má nefna þarfagreiningu, sem unnin verður í samstarfi við helstu hagaðila málsins, þ.á.m. háskóla sem vinna að rannsóknum í skapandi greinum, samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga. Staða skapandi greina verður jafnframt kortlögð og opnu mælaborði komið á fót fyrir helstu tölfræði í þessum efnum. Samhliða verður lögð sérstök áhersla á uppbyggingu GAGNÍS – gagnaþjónustu í félagsvísindum á Íslandi – sem opinn gagnagrunn fyrir þróun á mælitölum og rannsóknagögnum. Þá verður alþjóðlegt rannsóknarsamstarf eflt og haldin norræn málstofa um Skapandi greinar á krossgötum.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi sem fram fór að ríkisstjórnarfundinum afloknum, að 10 ár væri liðin frá útgáfu skýrslu sem markaði tímamót í skilningi fólks á þýðingu skapandi greina í efnahagslegu tilliti. Hún undirstrikaði jafnframt að menning og listir væru mikilvægasti samfélagsspegill þjóðarinnar og ekki mætti gleyma því að skapandi greinar snúist um meira en hagrænan ávinning eingöngu.
Þess má svo geta, að Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagastjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst, leiddi gerð skýrslunnar sem forsætisráðherra vitnaði í. Skýrslan var unnin að frumkvæði samtaka skapandi greina.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta