Rafbókasafn Háskólans á Bifröst fer ört stækkandi 5. október 2018

Rafbókasafn Háskólans á Bifröst fer ört stækkandi

Bókasafn Háskólans á Bifröst er nú að finna inn af fordyri skólans en hópur starfsmanna vann ötullega að flutningi þess nú í byrjun sumars. Á bókasafninu er að finna dágóðan bókakost sem háskólabókaverðir hafa í gegnum tíðina nostrað við að kaupa inn og í vor var einnig opnað rafbókasafn. Núverandi forstöðukona bókasafnsins og skjalastjóri, Þórný Hlynsdóttir, segir að núorðið kaupi hún inn á safnið flest ef ekki allt sem tengist pólitík og lögum eða siðfræði, hvort sem það eru ævisögur eða krimmar!

„Flutningur safnsins var til mikilla bóta, bæði er aðgengi fólks að mér sem skjalastjóra betra og ég hitti miklu fleiri samstarfsmenn og nemendur en áður,“ segir Þórný og bætir við í léttum dúr að nú þurfi hún líka ekki lengur að fara í yfirhöfn og útiskó ef hana langi í kaffibolla þar sem safnið er nú í aðalbyggingu háskólans.

„Við þurftum að minnka bókakostinn heilmikið til að geta komið safninu fyrir hérna á nýja staðnum og erum því með tæplega 200 bókakassa í geymslu, meirihlutinn af því efni er útgefinn fyrir árið 2000. En þetta er liður í því ferli sem bókasöfn hafa verið í um árabil, færslan frá hinu prentaða eintaki yfir í það rafræna. Við opnuðum rafbókasafn síðastliðið vor og ég reyni að kaupa bókasafnsrafbók af öllu kennsluefni ef ég mögulega get. Þær eru ekki allar í boði þannig en við eigum þó orðið um 50 rafbækur. Til að nálgast þær þarf notandi að vera staddur á IP-tölu neti Bifrastar þannig að þeir sem ekki eru á Bifröst eða Suðurlandsbraut þurfa VPN tengingu til að komast í þær. Slóðina í rafbókasafnið er að finna á heimasíðu bókasafnsins auk leiðbeininga hér  og einnig er beinn tengill hér

Þess ber að geta að elstu bókum safnsins er vel haldið til haga en elsta bókin í eigu safnsins er frá árinu 1750 og heitir á nútímaíslensku Hús postilla, eða einfaldar prédikanir yfir öll hátíða- og sunnudaga guðspjöll árið um kring / Gerðar af vel meinandi og vel trúverðugum sjálfum biskupnum yfir Skálholtsprestakalli, Séra Jóni Þorkelssyni Vídalín. Þá eru til nokkrar bækur frá 1750 fram til 1916 sem þykja kjörgripir eða listaverk í sjálfum sér. Einnig segir Þórný gersemar að eiga bækur Jónasar frá Hriflu, sem haldið er til haga í Jónasarstofu, og eins bókasafn Guðmundar Sveinssonar, fyrrverandi skólameistara. Þar kennir margra áhugaverðra grasa því Guðmundur var sérlega áhugasamur um allt sem viðkom mannlegu eðli.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta