Ráðstefnan um íslenska þjóðfélagið á Bifröst
Háskólinn á Bifröst verður aðsetur tólftu ráðstefnunnar um íslenska þjóðfélagið dagana 10. – 11. maí 2018. Ráðstefnan er sem fyrr vettvangur fyrir fræðimenn í öllum greinum hug- og félagsvísinda til að koma á framfæri rannsóknaverkefnum sínum og bera saman bækur sínar við aðra fræðimenn.
Kallað er eftir ágripum erinda sem þurfa að berast í síðasta lagi 23. mars 2018.
Framtíð háskólastarfs á landsbyggðinni verður yfirskrift upphafsfundar ráðstefnunnar og þeir sem vilja koma með erindi eru sérstaklega hvattir til að senda sem fyrst inn ágrip. Yfirskriftin vísar til þess að Háskólinn á Bifröst vill á 100 ára afmælisári sínu hvetja fræðimenn til að huga að þýðingu vísinda- og fræðastarfs á landsbyggðinni fyrir þróun byggðar og mannlífs í landinu.
Ráðstefnan verður að öðru leyti á hefðbundnu formi og vinnustofur skipulagðar eftir því sem við á þegar öll ágrip að erindum liggja fyrir. Miðað er við 20 mínútna erindi með rúmum tíma til umræðna. Ágrip af erindum (allt að 250 orð) skal senda til kennslustjori@bifrost.is og jafnframt gefa til kynna áform um þátttöku í ráðstefnunni og gistingu ráðstefnudagana. Endanleg dagskrá ráðstefnunnar verður send út í byrjun apríl með öllum nauðsynlegum upplýsingum og skráningu á ráðstefnuna lýkur um miðjan apríl.
Fundir og vinnustofur verða í Háskólanum á Bifröst. Gisting og máltíðir verða á Hótel Bifröst og hótelið hefur verið tekið frá fyrir viðburðinn. Ráðstefnugjald er 5.000 kr. en greitt er sérstaklega fyrir gistingu og máltíðir. Verð á eins manns herbergi með morgunmat er 10.800 kr. en á tveggja manna herbergi 15.400 kr. Nánari upplýsingar um gistingu verða veittar í netfanginu bifrost@bifrost.is hjá Sólveigu Hallsteinsdóttur þjónustustjóra.
Undirbúningshóp ráðstefnunnar skipa: Sigrún Lilja Einarsdóttir (sigrunlilja@bifrost.is), Stefán Kalmansson (stefank@bifrost.is), Sigrún Jónsdóttir (kennslustjori@bifrost.is) og Vilhjálmur Egilsson (rektor@bifrost.is). Hafa má samband við hvern sem er í undirbúningshópnum vegna nánari upplýsinga.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta