Glatt á hjalla í útskrift á Bifröst.
8. desember 2022Próf þreytt við Bifröst í 10 löndum
Nú í desember þreyttu nemendur við Háskólann á Bifröst próf í 10 mismunandi löndum í tveimur heimsálfum. Óhætt er því að segja að nemendur háskólans séu víðförlir.
Prófúrlausnir bárust frá tveimur heimsálfum eða Evrópu annars vegar og Eyjaálfu hins vegar. Dreifing heimsálfa á milli virðist jafnframt vera regla frekar en undantekning. Að sögn Leifs Finnbogasonar, prófstjóra, bárust á síðustu önn prófúrlausnir frá Bandaríkjunum og Evrópu og dreifðist námsmat því einnig á tvær heimsálfur í það skipti.
Löndin sem próf voru tekin frá nú í desember voru auk Íslands Ástralía, Búlgaría, Danmörk, Frakkland, Ítalía, Portúgal, Slóvakía og Þýskaland. Rétt er svo að geta þess að erlendir skiptinemar koma hér ekki við sögu og er því eingöngu um að ræða Íslendinga eða fólk búsett á Íslandi.
Mikilvægur hluti af fjarnámi er réttur nemenda á námsmati óháð staðsetningu. Þetta fer að sögn Leifs þannig fram, að sá sem vill nýta sér þennan rétt útvegar próftökustað sem uppfyllir tiltekin skilyrði. „Skilyrðin eru þau sömu hvort heldur prófið er tekið hér á landi eða erlendis. Þegar við höfum gengið úr skugga um að svo sé, getur viðkomandi þreytt próf á þeim stað,“ segir Leifur.
Þá er aldursdreifing próftakenda ekki síður athyglisverður, en 45 ára munur er á þeim elsta og yngsta. Sá elsti, sem er fæddur árið 1958, tók próf í vinnurétti á meistarastigi, en sá yngsti er fæddur 2002 og tók próf í markaðsfræði I og rekstrarhagfræði á grunnnámsstigi.
Þess má svo geta að ef litið er til erlendu skiptinemanna þá lækkar aldur yngsta nemendans um ár, en hollenskur skiptinemi fæddur árið 2003 tók próf í „Globalization and Financial Institutions“ annars vegar og „Iceland Language and Culture“ hins vegar. Vel gert.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta