Nýtt nám í áfallastjórnun við Háskólann á Bifröst
Þegar jörð skelfur reynir á. Reynslan kennir fólki að bregðast við slíkum aðstæðum en til þessa hefur ekki staðið til boða heildstætt nám í áfallastjórnun á Íslandi.
Næsta haust verður ráðin bót á þessu því við Háskólann á Bifröst verður ýtt úr vör námi í áfallastjórnun. Undirbúningur hefur staðið í allan vetur og koma auk félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst að náminu Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Rauði krossinn á Íslandi, Samband íslenskra sveitarfélaga og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Það er afar dýrmætt fyrir skólann að geta boðið upp á þetta nám í samvinnu við helstu viðbragðsstofnanir samfélagsins.
Námið verður bæði hægt að taka til diplómu á meistarastigi og til fullrar meistaragráðu og er skipulagt þannig að námið til diplómu er 60 ECTS eininga fullt eins vetrar nám. Með því að bæta við 30 ECTS einingum með námskeiðum úr öllum deildum háskólans á Bifröst, félagsvísinda-, laga- og viðskiptadeild má ljúka MCM prófi í áfallastjórnun en með því að bæta við 30 ECTS ritgerð má ljúka MA prófi.
Náttúruhamfarir eru samofnar sögu Íslands. Sé litið til síðastliðins aldarfjórðungs hafa stærstu áföllin í kjölfar náttúruhamfara verið vegna mannskæðra snjóflóða, jarðskjálfta, jökulhlaupa, eldgosa, aftakaveðurs og skriðufalla. Fyrir utan manntjón hafa þessi áföll haft gífurlegt fjárhagstjón í för með sér. Þá var áfallið sem þjóðarbúið varð fyrir við hrun bankanna haustið 2008 einnig alvarleg áminning um hversu á skortir að stjórnendur og stefnumótendur séu nægilega í stakk búnir til að axla ábyrgð á viðnámi og viðbrögðum vegna efnahagsáfalla. Áhrif kórónuveirufaraldursins á heilsu og efnahag sem og félagsleg áhrif eiga enn eftir að koma í ljós og krefjast aðgerða næstu árin.
Með markvissari áfallastjórnun er hægt að auka öryggi almennings og draga úr þeim skaða sem áföllum fylgja. Þetta hefur hvatt fræðimenn til að þróa þekkingu og skilning á þeim ferlum og mannlegri hegðun sem hafa áhrif þegar áföll dynja á. Til þess hafa þeir leitað eftir samvinnu við viðbragðsaðila—þeirra sem reynsluna hafa. Áfallastjórnun er ung fræðigrein í örum vexti og hefur þegar skilað betri innsýn til þeirra stjórnenda og stefnumótenda sem með tileinkun á nýrri þekkingu og þjálfun hafa getað skilað markvissari áfallastjórnun.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í nám í áfallastjórnun og er nánari upplýsingar um námið að finna hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta