Nýtt meistaranám í markaðsfræðum hefst í haust
Í haust verður boðið upp á nýtt meistaranám í markaðsfræði við Háskólann á Bifröst. Ákveðið hefur verið að bjóða þennan valkost samhliða aukinni eftirspurn eftir meistaranámi við viðskiptadeild skólans en í áratug hefur BS markaðsfræðinám á Bifröst verið í sérflokki á Íslandi með fjölbreyttu úrvali markaðsfræðiáfanga.
Námið er ætlað þeim sem starfa eða hafa hug á að starfa við markaðsmál og hafa þegar reynslu af markaðs- og sölumálum en vilja dýpka þekkingu sína á fjölbreyttri flóru markaðsfræðinnar.
„Meistaranám í markaðsfræðum er heildstætt nám sem inniheldur víðtæk námskeið, allt frá markaðslegri stefnumótun til stafrænna markaðssamskipta en slík kunnátta og þekking er sífellt mikilvægari í þjónustu og samskiptum við neytendur. Með faglegri markaðsstjórn geta fyrirtæki og stofnanir þjónað viðskiptavinum sínum enn betur og náð meiri árangri,“ segir Sigurður Ragnarsson, forseti viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst.
Námið er kennt í fjarnámi en Bifröst hefur áralanga reynslu í háskólakennslu í fjarnámi, bæði í grunnnámi og í meistaranámi. Umsóknarfrestur í meistaranám við Háskólann á Bifröst er til og með 15. maí næstkomandi. Nánari upplýsingar um námið má sjá hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta