Axel, Ágúst, Ragnhildur og Margrét hittust í anddyrinu í HR í tilefni af útgáfu bókarinnar.

Axel, Ágúst, Ragnhildur og Margrét hittust í anddyrinu í HR í tilefni af útgáfu bókarinnar.

16. desember 2022

Nýtt frá Háskólanum á Bifröst og Háskólanum í Reykjavík

Komin er út bókin Rekstrarhagfræði og samfélagið eftir Ágúst Einarsson og Axel Hall. Um er að ræða umfangsmesta rit sem hefur verið gefið út á íslensku um rekstrarhagfræði.

Útgefendur eru Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík. Í bókinni er fjallað um samspil efnahagsmála og samfélags og því lýst hvenær mörkuðum og stjórnvöldum tekst vel til og hvenær ekki. Með því er aðferðafræði rekstrarhagfræði tengd við aðrar fræðigreinar eins og stjórnmálahagfræði og samfélagið sjálft, meðal annars með dæmum og hvernig hægt er að finna fræðunum not í daglegu lífi. Í því sambandi eru verkefni hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga, skoðuð svo og starfsemi annarra opinberra aðila, þar með talið alþjóðastofnana. 

Bókin er gefin út sem rafbók og er dreift hjá Heimkaupum. Í bókinni eru um 200 skýringarmyndir og ljósmyndir. Einnig eru yfir 100 raundæmi og skýringardæmi þar sem fræðin eru sett í samhengi við hagnýt viðfangsefni úr daglegu lífi efnahagsmála. Í bókinni má finna margar frásagnir úr íslensku og erlendu efnahagslífi. Í bókarlok eru helstu hugtök skýrð, þar er íslenskt-enskt og enskt-íslenskt orðasafn, nafnaskrá auk atriðisorðaskrár. 

Dr. Ágúst Einarsson er prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst, fyrrverandi rektor skólans og var um árabil prófessor í Háskóla Íslands. Ágúst tók virkan þátt í stjórnmálum, var alþingismaður og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum í samfélaginu og var til að mynda formaður bankaráðs Seðlabankans, samninganefndar ríkisins og sat í stjórnum Landsvirkjunar og Borgarleikhússins. Ágúst hefur skrifað fjölda bóka, meðal annars um rekstrarhagfræði, menningarhagfræði, kvikmyndir, tónlist, heilbrigðismál og íþróttir, flutt erindi og birt greinar í tímaritum, bókum og ráðstefnuritum. Ágúst var um árabil varaforseti samtaka evrópskra fræðimanna um frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki. 

Dr. Axel Hall starfar sem lektor við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavik. Axel hefur ritað og birt fjölda greina um viðskipta- og efnahagsmál. Hann hefur kennt fjölmörg námskeið í hagfræði, stærðfræði og tölfræði, við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Axel hefur verið ráðgjafi stjórnvalda og leitt nefndir á þeirra vegum varðandi efnahagsmál. Hann var til að mynda formaður nefndar stjórnvalda um endurskoðun tekjuskatts í aðdraganda lífskjarasamninganna 2019. Axel var varaformaður fjármálaráðs á árunum 2016–2022 og situr nú í fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta