Nýtt diplómanám í skapandi greinum 20. maí 2020

Nýtt diplómanám í skapandi greinum

Hlutverk mitt í lífinu!

Nýju diplómanámi í skapandi greinum verður hleypt af stokkunum við Háskólinn á Bifröst.

Fyrirsögnin er heiti á inngangsnámskeiði í eins árs diplómanámi sem hefst við Háskólan á Bifröst í haust. 

 “Þetta er hagnýtt nám í skapandi greinum sem er ætlað að vera upplýsandi fyrir ungt fólk sem er ennþá leitandi eftir framhaldsskólagöngu sína eða hefur flosnað upp úr námi”, segir Anna Hildur Hildibrandsdóttir kvikmyndaframleiðandi og aðjúnkt við Bifröst. Hún hannaði námslínuna ásamt Magnúsi Skjöld deildarforseta félagsvísindadeildar og Nirði Sigurjónsyni prófessor.

“Skapandi greinar eru vaxandi atvinnuvegur sem kallar á nýja nálgun í skólakerfinu. Árangur íslensk hugvits- og listafólks á heimsvísu opnar sífellt fleiri tækifæri fyrir þá sem vilja finna störf í fjölbreytileikanum sem skapandi greinar bjóða upp á. Mér fannst því ótrúlega spennandi þegar Njörður og Magnús buðu mér að koma og halda utan um hönnun á svona námslínu. Háskólinn á Bifröst er í fararbroddi þegar kemur að kennslu í menningarstjórnun sem hefur verið kennd í yfir 20 ár á BA, MCM og MA stigi. Þetta er kærkomin viðbót við það og ætlað þeim sem hyggja ekki endilega á langt háskólanám en langar að öðlast innsýn, þekkingu og tengingar sem geta gagnast þeim við að finna starf við hæfi.”

Í náminu er boðið upp á eitt 12 eininga námskeið og sex 6 eininga námskeið. Anna Hildur og Henny María Frímannsdóttir umboðsmaður og eigandi Klapp umboðsskrifstofunnar kenna saman áfangann sem nefnist; Hlutverk mitt í lífinu! Áfanginn verður byggður upp á vinnusmiðjum og fyrirlestrum. Lagt verður upp úr því að nemendur móti hvað þeir vilja fá út úr náminu með kennurunum. Henny kennir einnig áfanga í verkefnastjórnun. Magnús Skjöld kennir áfanga um samfélagslega ábyrgð og virka þátttöku. Dr. Rán Tryggvadóttir lögfræðingur kennir hagnýtan höfundarétt en hún hefur starfað á því sviði í rúm 20 ár, ýmist við kennslu, rannsóknir, stefnumótun, ráðgjöf og réttindagæslu. Guðný Guðjónsdóttir eigandi ráðgjafa- og fjármálaþjónstunnar Projects kennir námskeið um fjármál og rekstur. Hún hefur áratugareynslu af rekstri fyrirtækja í skapandi greinum.  Margeir Steinar Ingólfsson sérfræðingur og stjórnarformaður Hugsmiðjunnar og líka þekktur sem DJ Margeir kennir áfanga um markaðs- og kynningarmál.

Auk þess munu framleiðendur úr öllum geirum skapandi greina koma að því að kenna áfanga um framleiðslu menningarefnis. Lokaverkefni nemenda sem gildir sem 12 einingar mun snúast um að koma eigin hugmynd í framkvæmd.

Nánari upplýsingar um námið og námskeiðin er að finna hér.
Opnað hefur verið fyrir skráningar í námið hér.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta