Dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, í pontu á Hvanneyri.
18. nóvember 2021Nýsköpun og þróun fyrir matvælalandið Ísland
Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri gengust í dag fyrir vinnufundi vegna Matvælalandsins Íslands, nýsköpunar- og þróunarseturs landsbyggðarinnar. Fundinn sátu fulltrúar orkugeirans, matvælageirans, háskólasamfélagsins, stjórnsýslunnar og nýsköpunnar.
Fundurinn fór fram á Hvanneyri og var vel sóttur. Að stuttum framsögum og umræðum loknum var þátttakendum skipt upp í vinnuhópa. Framsögur höfðu dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst og dr. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri ásamt Áshildi Bragadóttur, nýsköpunar- og þróunarstjóra landbúnaðarháskólans.
Spurningar sem vinnuhóparnir unnu með lutu meðal annars að samstarfstilhögun þeirra fjölmörgu fagaðila sem koma að verkefninu og hvernig fræðslu- og þekkingarmiðlun verði sem best háttað í tengslum við verkefnið.
Stefnt er að því að byggja upp samstarf á milli háskólanna tveggja í Borgarfirði vegna nýja nýsköpunar- og þróunarsetursins. Markmiðið er að skapa umhverfi fyrir samvinnu, þróun og miðlun ólíkrar þekkingar á sviði rannsókna, nýsköpunar og sjálfbærni. Jafnframt verður horft til þess að þróa viðskiptahugmyndir og stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja.
Þá verður sérstaklega horft til landbúnaðar, matvælaframleiðslu og ferða- og loftslagsmála með það að leiðarljósi að styrkja m.a. samkeppnisstöðu matvælaiðnaðarins og atvinnu- og byggðaþróun hér á landi.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta