28. október 2022

Nýsköpun á breiðari grunni

Skipulagsbreytingar í þróuðum hagkerfum og samfélögum hafa smám saman leitt til þess að þjónustuiðnaður og skapandi greinar hafa fengið aukið vægi sem drifkraftur í nýsköpun. Þetta var ekki eins augljóst í upphafi aldarinnar en blasir við hverjum manni nú á þriðja áratugnum. Þetta kom fram í fyrirlestri Dr. Stuart Cunningham, sem er prófessor emeritus við Queenslands University of Technology í Ástralíu og leiðandi fræðimaður í heiminum á sviði menningar og skapandi greina, flutti í Grósku í gær í boði Háskólans á Bifröst og Háskóla Íslands.

Þörf á víðtækari nálgun á nýsköpun

Fyrirlestur Cunningham fjallaði um þá huldu nýsköpun sem býr í skapandi greinum og mikilvægi þess að greina hana og skilja fyrir þær breytingar sem framundan eru. Ástæður þess að þetta drif nýsköpunar hefur verið hulið er ekki síst vegna þess hversu nýtilkomið það er og hluti af þeirri þróun sem samfélagið er enn að reyna að skilja og einnig vegna þess hversu erfitt getur reynst að mæla sköpun. Mikilvægur hluti þess eru endurskilgreiningar á iðnaði og þeim mælieiningum sem um hann hafa verið notaðar. Hann sagði mikilvægt að hugvísindi, listir og félagsvísindi fái aukið vægi í  rannsóknaráætlunum, stefnumótun og áætlanagerð og bendir til mikilvægis þeirrar upplýsingasöfnunar sem Bretar og Ástralar hafa ráðist í, síðustu áratugi, með uppbyggingu gagnasafna, greininga og rannsókna á menningu og skapandi greinum. Það starf hefur undirbyggt þekkingu á þeim breytingartímum sem við lifum og aukið skilning á mikilvægi skapandi starfsemi í þeim.

Fjölbreytt stefna og breytingar á stoðkerfum

Cunningham telur jafnframt einsýnt að án þeirrar þekkingaruppbyggingar og gagnasöfnunar sem ráðast þarf í hér á landi verði erfitt að ráðast í stefnumótun sem skilað getur raunverulegum árangri til framtíðar. Stefnumótun á sviði menningar og skapandi greina þarf að vera fjölbreytt og taka mið að því að skapandi greinar eru meira en listir. Aðvitað eru listir hluti af geiranum en aðeins lítill hluti af heildinni. Þess vegna þarf ólíkar aðferðir til að styðja við og þróa greinar innan sviðsins. Mikill fjöldi fyrirtækja sem starfa innan skapandi greina eru lítil og örfyrirtæki sem þurfa stuðning sem er í anda sprotastuðnings. Þá þurfi hefðbundnar menningarstofnanir, sem njóta opinbers stuðnings, að hafa aukið hlutverk um stuðning og örvun þessara litlu fyrirtækja. 

Örvun sköpunarkraftins

STEM er áhersla á vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði  (e. Science, Technology Engineering, Mathematics) í kennslu sem, ólíkt hefðbundnum kennsluaðferðum sem aðgreina námsgreinar, leggur áherslu á að tengja greinarnar hverja við aðra til þess að hámarka nýtingu þekkingar. STEAM aðferðafræðin hefur bætt listum (e. Arts) inn í þær greinar sem lögð er áhersla á að nemendur geti nýtt, til að örva sköpunarhæfileika þeirra. Kennslufræðin undirstrika mikilvægi samstarfs, samskipta, rannsókna, vandamálalausn, gagnrýna hugsun og sköpunarkraft, sem færni sem nemendur þurfa til að ná árangri í til að takast á við nútímann, óháð sérstökum áhugamálum eða starfsmarkmiðum.

Aðspurður um mikilvægi STEAM kennslufræða við undirbúning, skólakerfið og þróun þess, segir Cunningham að skapandi hugsun verði sífellt mikilvægari fyrir líf og störf manna í nútímasamfélagi. Cunningham vísar reyndar til þess að mikilvægt sé að huga að því að undirbúa nýjar kynslóðir einnig með aukna áherslu á frumkvöðlahugsun og hönnun og vísar því til skammstöfunarinnar sem STEAMED, þar sem E merkir frumkvöðlahugsun (e. entrepreneurship) og D stendur fyrir hönnun (e. design). 

Undirbúningur að stofnun Rannsóknamiðstöðvar skapandi greina

Stuart Cunningham er staddur á Íslandi í tengslum við undirbúning á stofnun Rannsóknarseturs skapandi greina þar sem hann hefur sinnt ráðgjafahlutverki, ásamt teymi sínu. Cunningham hefur skrifað eða verið meðhöfundur 15 bóka, 25 skýrslna og yfir 200 ritrýndra greina og bókarkafla auk þess að hafa skrifað fjölda almennra greina. Hann hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga og æðstu orðu ríkisins Ástralíu fyrir fræðistörf sín.

Félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands stóðu sameiginlega að hádegisfyrirlestri Cunninghams sem bar nafnið, Falin nýsköpun: Hlutverk skapandi greina í mótun hagkerfa og samfélaga.

Nálgast má upptöku af fyrirlestrinum hér.

Tengd umfjöllun

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta