21. janúar 2020

Nýr lektor og mannauðsstjóri tekinn til starfa

Arney Einarsdóttir hefur hafið störf sem lektor við viðskiptadeild Háskólans Bifröst auk þess sem hún gegnir stöðu mannauðsstjóra skólans. Arney lauk doktorsprófi í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2018. Hún starfaði sem lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2004 til 2017 og sem forstöðumaður rannsóknarstofnunar í mannauðsstjórnun. Frá 2018 starfaði Arney sem lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Arney hefur auk þess verið gestakennari við Árhúsarháskóla, Simon Fraser háskóla í Vancouver og Kýpurháskóla. Hún hefur stýrt þátttöku Íslands í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi um 40 háskóla í CRANET samstarfsnetinu frá árinu 2005. Tilgangur þess er að standa fyrir reglubundnum rannsóknum á mannauðsstjórnun í öllum aðildarlöndunum til að auka þekkingu á þróun mannauðsstjórnunar í heiminum og gera samanburðarrannsóknir mögulegar. Arney er einnig virkur þátttakandi í tveimur öðrum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, annars vegar rannsókn á störfum stjórnenda, hjúkrunarfræðina og verkfræðinga í alls 47 þátttökulöndum (Work Design Across Cultures) og hins vegar í norrænu rannsóknarverkefni sem ber yfirskriftina "Future of Work" og er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Arney hefur samhliða kennslu og rannsóknum tekið að sér ýmis verkefni sem ráðgjafi í rannsóknum og ráðningum fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök hér á landi.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta