3. janúar 2017

Nýr doktor við félagsvísindadeild

Auður H. Ingólfsdóttir, lektor við Félagsvísindadeild, varði doktorsritgerð sína Climate Change and Security in the Arctic. Analysis of Norms and Values Shaping Climate Policy in Iceland í Háskólanum á Lapplandi þann 16. desember síðastliðinn. Um er að ræða sameiginlega doktorsgráðu frá Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Félagsvísindasviði Háskólans á Lapplandi. Þar með eru allir fastir kennarar við Félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst með doktorsgráðu.

Rannsóknarefni Auðar voru loftslagsbreytingar og öryggismál á Norðurslóðum og voru leiðbeinendur Auðar þau Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild, og Lassi Heininen, prófessor í málefnum norðurslóða við Háskólann í Lapplandi. Andmælendur voru þau Dr. Teemu Palosaari og Dr. Annica Kronsell. Dr. Lassi Heininen stjórnaði athöfninni.

Hugtök úr femínisma og kynjafræði notuð sem greiningartæki

Auður leitar svara við eftirfarandi spurningu í doktorsrannsókn sinni;  Þrátt fyrir að loftslagsbreytingar ógni bæði náttúru og samfélögum manna hefur alþjóðasamfélagið verið svifaseint að bregðast við. Hvaða pólitísku og efnahagslegu hagsmunir og menningarlegu gildi koma í veg fyrir að við grípum til aðgerða?

Hún beitir tilviksrannsókn til að skoða áhrif loftslagsbreytinga, pólitíska orðræðu og undirliggjandi gildi þessarar orðræðu í einu ríki á Norðurslóðum, Íslandi. Rannsóknin byggist á kenningum feminískrar mótunarhyggju þar sem hugtök úr femínisma og kynjafræði eru notuð sem greiningartæki. Gögnin sem stuðst er við samanstanda af stefnumarkandi skjölum, viðtölum við fólk sem hefur beitt sér í umræðu um loftslagsmál og ræðum stjórnmálamanna.

„Tilviksrannsóknin sýnir að þrátt fyrir að fólk upplifi loftslagsbreytingar sem ógn á Íslandi þá sé ógnin óljós og fjarlæg og litlar rannsóknir eru til um samfélagsleg áhrif hennar. Eftir greiningu á stefnumótun og orðræðu um loftslagsmál á Íslandi er niðurstaðan sú að þau undirliggjandi gildi sem vísa veginn í opinberri stefnumörkun eru hvorki afgerandi karllæg né kvenlæg. Rannsóknin dregur hins vegar fram mikilvægi þess að horfa heildstætt á umræðuna í samfélaginu og setja orðræðu um loftslagsbreytingar í samhengi við ríkjandi orðræðu um öryggi og efnahagsþróun,“ segir Auður um niðurstöður rannsóknarinnar.

Auður H. Ingólfsdóttir er með BA-gráðu í alþjóðafræði við University of Washington (Seattle), próf í hagnýtri fjölmiðlun frá HÍ og MA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Fletcher School of Law and Diplomacy, Tufts University (Boston). Hún hefur starfað sem lektor við Háskólann á Bifröst frá árinu 2010. Áður starfaði hún m.a. sem blaðamaður (1995-1997), sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu (2002-2003), sem sjálfstæður ráðgjafi í umhverfismálum (2003-2006, 2007) og sem sérfræðingur á vegum íslensku friðargæslunnar í Sri Lanka og á Balkansskaga (2006-2008).

Hægt er að nálgast rafræna útgáfu af ritgerðinni í opnum aðgangi hér 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta