Ný rannsóknagátt hjá Háskólanum á Bifröst
Ný rannsóknagát veitir nú opinn aðgang að rannsóknasafni Háskólans á Bifröst. Gáttin er hluti af Rannsóknasafni IRIS, sem er skammstöfun fyrir The Icelandic Research Information System.
Rannsóknasafnið IRIS var opnað við athöfn 15. júní sl. eftir margra ára undirbúning og sýnir rannsóknavirkni íslenskra háskóla og stofnana. Með yfirumsjón þess fer Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafn.
IRIS byggir á sérhæfðu upplýsingakerfi. Með tilkomu þess hefur til mikilla muna aukist sýnileiki, yfirsýn og aðgengi að upplýsingum um rannsóknir á Íslandi með tilheyrandi ábata fyrir íslenskt rannsóknarsamfélag, þ.m.t. háskólasamfélagið, atvinnulífið, sprotafyrirtæki, fjölmiðlar og almenningur, svo að helstu hagaðilar kerfisins séu nefndir.
Á meðal þess sem Rannsóknasafnið IRIS gefur kost á að skoða er rannsóknarvirkni og samfélagsleg dreifing á þeirri þekkingu sem verður til við rannsóknir á Íslandi. Kerfið gerir notendum þannig kleift að skoða rannsóknarframlag einstakra stofnana, fræða-, lista- og vísindafólks sem og þátttöku þess í alþjóðlegu samstarfi.
Aðild að IRIS eiga allir háskólar landsins ásamt Landspítalanum, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Stefnt er að því að allar rannsóknastofnanir á Íslandi verði aðilar að kerfinu á næstu árum.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta