Team Bifröst f.v. Birkir Snær Jónsson, Þórunn Selma Bjarnadóttir, Helga Halldórsdóttir, Lea Hrund Sigurðardóttir og Ásdís Nína Magnúsdóttir, sem aðstoðaði við undirbúning. (Ljósm. HR)

Team Bifröst f.v. Birkir Snær Jónsson, Þórunn Selma Bjarnadóttir, Helga Halldórsdóttir, Lea Hrund Sigurðardóttir og Ásdís Nína Magnúsdóttir, sem aðstoðaði við undirbúning. (Ljósm. HR)

22. mars 2022

Norrænir háskólar mættust í Reykjavík í Nordic Case Challenge

Háskólinn á Bifröst tók ásamt átta öðrum norrænum háskólum þátt í Nordic Case Challenge, sem fór nýlega fram í Háskólanum í Reykjavík. 

Team Bifröst skipuðu viðskiptafræðinemarnir Birkir Snær Jónsson, Helga Halldórsdóttir, Lea Hrund Sigurðardóttir og Þórunn Selma Bjarnadóttir. Aðstoð við undirbúning vegna keppninnar veitti Ásdís Nína Magnúsdóttir, einn af kennurum í sjálfbærni og samfélagsábyrgð við Háskólann á Bifröst.

Keppnin fór fram sl. föstudag og laugardag, þann 18. og 19. mars og öttu þau kappi við lið frá Aarhus University (Danmörku), BI Norwegian Business School (Noregi), Copenhagen Business School (CBS; Danmörku), Lund University (Svíþjóð), Háskólanum í Reykjavík, Satakunta University of Applied Sciences (Finnlandi), Tampere University (Finnlandi) og University of Agder (Noregi).

Tilviksgreining á sjálfbærari viðskiptalíkönunum

Nordic Case Challenge fer fram í tveimur umferðum og snýst keppnin um að leysa raunhæfar tilviksgreiningar úr viðskiptalífinu. Yfirskrift keppninnar snéri að aukinni sjálfbærni viðskiptalíkana og leystu liðin í fyrri umferðinni tilviksgreiningu frá sænska netsölufyrirtækinu Boozt en í þeirri síðari kom tilviksgreiningin frá íslenska matvælavinnslufyrirtækinu Marel.

Liðin þurftu bæði að greina fyrirliggjandi vanda, leggja til nýjar lausnir á vandanum, meta áhrif annarra líklegra lausna, gera aðgerðaáætlun og ákvarða hvaða fjárhagslegu áhrif aðgerðir hefðu í för með sér.

Risavaxin verkefni

Fyrir þetta risavaxna verkefni höfðu liðin aðeins 15 klst. eða frá kl. 09:30 á föstudagsmorgni og til kl. 01:00 á aðfararnótt laugardags, þegar skilafrestur rann út. Liðin þurftu svo að vera mætt snemma laugardagsmorgun til að kynna niðurstöður sínar fyrir dómnefnd keppninnar, en sú kynning fór fram kl. 09:00 – 11:00.

Liðin stóðu sig öll frábærlega og litu margar athyglisverðar tillögur um sjálfbærari viðskiptalíkön dagsins ljós. Niðurstaða dómnefndar var síðan sú að lið norska viðskiptaháskólans BI Noorwegian Business School færi með sigur af hólmi.

Glaðir og stoltir liðsfélagar

Team Bifröst stóð sig frábærlega, bæði í greiningarvinnu og kynningu á niðurstöðum og færir Háskólinn á Bifröst þeim innilegar þakkir fyrir glæsilega frammistöðu.

“Við erum gríðarlega stolt af okkur, lærðum helling, en þetta var gríðarlega krefjandi en skemmtilegt,” sögðu liðsfélagarnir þau Birkir, Helga, Lea og Þórunn að keppni lokinni.

Háskólinn á Bifröst vill jafnframt koma sérstökum þökkum á framfæri við Ásgeir Jónsson, forstöðumann grunnnáms í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík, sem hafði veg og vanda af skipulagningu Nordic Case Challenge hér á landi.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta