Niðurstöður gæðakönnunar kynntar
Árleg gæðakönnun er nýr liður í gæðastarfi Háskólans á Bifröst. Fyrsta könnunin fór fram í maí sl. og hafa niðurstöður verið kynntar innan háskólans.
Ánægja nemenda mældist á heildina litið um 80%, sem er sambærilegt því sem háskólar eiga almennt að venjast. Samkvæmt Studyportal er meðalánægja nemanda sem dæmi 4,1 af 5 mögulegum, en stofnunin byggir upplýsingar sínar á gögnum frá 3,500 háskólum í 114 löndum.
Á meðal þess sem nemendur lýsa ánægju sinni með eru gæði námsins, en allt að 89% nemenda eru ánægðir með námsgæði. Þá telja 93% nemenda að verkefnadrifið námsfyrirkomulag hjálpi þeim að ná tökum á námsefninu og 85% nemenda mæla með námi við Háskólann á Bifröst.
Fjárnám og yfirburðaskipulag sem gerir fólki kleift að vera í námi með vinnu var á meðal þess sem var oftast nefnt í opinni spurningu um helstu kosti þess að vera í námi við Bifröst. Í öðru sæti var sveigjanleiki, verkefnanálgun var í þriðja sæti, persónulegur skóli var í fjórða sæti og í fimmta sæti var lotukerfi námsins.
Af atriðum sem mætti bæta var m.a. nefnt að kennarar gætu bætt endurgjöf og svonefnda „farþega“ í verkefnavinnu sem fá góða einkunn enda þótt þeir hafi fátt lagt til málanna. Þá var einnig algengt að kvartað væri undan því að misserisverkefni hefjist á vorönn svo að dæmi séu tekin. Þess má svo geta að erfiðlega gekk að greina í þessum hluta svara rauðan þráð, þar sem athugasemdir voru af fjölbreyttum toga.
Þegar er farið að skilgreina umbótaverkefni upp úr þeim ábendingar voru gerðar um í könnuninni um það sem betur mætti gera.
Gæðakönnunin fór fram á sumarönn og svöruðu samtals 232 könnuninni. Þátttaka telst því viðunandi en engu að síður er vonast er eftir ívið meiri þátttöku þar sem könnunin verður framvegis gerð í apríl, undir lok hverrar vorannar.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta