Nemendur í fjölmiðlafærni heimsækja ólíka miðla
Samhliða því að boðnar voru nýjar námsleiðir við Háskólann á Bifröst eins og Miðlun og almannatengsl og Byltingafræði var ákveðið að tengja námið enn betur þjóðfélagsumræðunni með námskeiði í Fjölmiðlafærni. Það er fjölmiðlakonan þjóðþekkta Sigríður Arnardóttir, eða Sirrý, sem kennir námskeiðið.
Sirrý veit af eigin reynslu að slík þjálfun skiptir máli en hún lærði fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands og var síðan í framhaldsnámi hjá fjölmiðlasamsteypu í Bandaríkjunum. Hún segir mikilvægt að þekkja fjölmiðlaheiminn og störf innan hans, sama hvort fólk hugsi sér að vinna beint eða óbeint við fjölmiðla.
„Nemendur eru í þjálfun í því að koma sér og hinum ýmsu málum á framfæri við fjölmiðla og svo þegar maður er kominn í viðtal að nota tækifærið vel og kunna að gera kröfur til sín sem viðmælanda og til fjölmiðilsins," segir Sirrý.
Fylgst með gerð útvarpsþáttar
Nú í lok janúar fóru þeir Adam Óttarsson og Jón Birgir Valsson, nemendur í fjölmiðlafærni í starfskynningu á útvarpsstöðina Bylgjuna og fylgdust með gerð þáttarins Í bítið á Bylgjunni. Hér er gripið niður í frásögn Jón Birgis af kynningunni þar sem segir m.a.;
„Við mættum ferskir kl. 06:45 og tókum aðeins púlsinn á undirbúningi þáttarins áður en farið var beint í útsendingu. Vorum við auk þess teknir í u.þ.b. 5 mínútna langt viðtal hvar Heimir og Gulli spurðu okkur aðeins út í námið, skólann og ástæðu heimsóknar okkar til þeirra. Viðmót þeirra félaga var afar þægilegt og til fyrirmyndar. Var gaman að sjá hvað samvinna þeirra á milli var fagmannleg og fumlaus í alla staði. Andrúmsloftið var mjög gott og afslappað og þ.a.l. áreynslulaust fyrir okkur Adam að fara í viðtal við þá félaga þar sem þetta gat allt eins verið spjall í góðra vina hópi...“ Þá segir Jón Birgir einnig í frásögn sini að heimsóknin hafi verið fræðandi og þeir félagar hafi orðið margs vísari um þáttargerð í útvarpi.
Sjá má ítarlegra viðtal við Sirrý og innsýn í námskeiðið í myndbandi hér að neðan.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta