Námskeið í frumkvöðlafræði fyrir konur
Female verkefninu lýkur um næstu mánaðarmót en það hófst í september 2013. Samstarfaðilar eru sex frá fimm löndum, Íslandi, Bretlandi, Litháen, Spáni og Ítalíu en Vinnumálastofnun leiðir verkefnið. Auk Vinnumálastofnunar er Háskólinn á Bifröst samstarfsaðili.
Aðalmarkmið verkefnisins er að efla hæfni og færni frumkvöðlakvenna á Íslandi, Litháen, Spáni og í Bretlandi með því að bjóða upp á námskeið í hinum ýmsu námsþáttum sem tengjast viðskiptum. Auk þess tóku þátttakendur þátt í svokölluðum þjálfunarhringjum, þar sem unnið var með ýmsa persónulega hæfniþætti, svo sem sjálfsstyrkingu og markmiðasetningu. Einnig gafst þátttakendum færi á því að endurspegla sín viðfangsefni og vandamál við hvor aðra og þannig nálgast lausnir á þeim. Markhópur verkefnisins voru konur sem höfðu stofnað fyrirtæki á síðustu 2-3 árum.
Hluti af Female verkefninu var uppsetning heimasíðu þar sem hægt var að skrá sig inn á samfélagssíðu og tengjast þar með öðrum konum í sömu sporum annarsstaðar í Evrópu. Þar er einnig hægt að nálgast efnið sem unnið var með í námskeiðunum, vinnubækur og vefupptökur. Verið er að útbúa handbók fyrir frumkvöðlakonur sem verður einnig á heimasíðunni. Þar má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar, tengla og viðtöl við frumkvöðlakonur sem hafa náð árangri með sín verkefni.
Framundan er lokaráðstefna verkefnisins sem haldin verður í Kaunas í Litháen. Ráðstefnan er hluti af Alþjóðlegri athafnaviku og er einnig haldin á Alþjóðadegi frumkvöðlakvenna sem er haldinn hátíðlegur um allan heim þann 19.nóvember.
Þar mun verkefnið verða kynnt, þátttakendur í GO4It vinnustofunum munu segja frá sinni reynslu. Frá Íslandi mun Harpa Hlín Þórðardóttir, eigandi Iceland Outfitters, halda fyrirlestur en hennar fyrirtæki sérhæfir sig í ferðum fyrir veiðimenn á Íslandi. Einnig verða hringborðsumræður og boðið verður upp á vinnustofur á ensku og á litháensku og lýkur ráðstefnunni með tengslanetsfundi.
Enn er hægt að skrá sig á samfélagssíðuna á heimasíðunni og nálgast frekari fróðleik um verkefnið. www.femaleproject.eu
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta