Nám í menningarstjórnun nýtist á margvíslegan hátt í daglegum störfum 8. maí 2017

Nám í menningarstjórnun nýtist á margvíslegan hátt í daglegum störfum

Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður Reykjavíkurborgar, lauk meistaranámi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2008. Pálína, sem er með BA í Bókasafns- og upplýsingafræði fyrir og starfaði í almenningsbókasafni frá útskrift, segir námið hafa nýst sér mjög vel. 

„Námið hefur sérstaklega nýst vel við stefnumótunarvinnu og framtíðarsýn fyrir Borgarbókasafnið, sem er stór hluti af starfi mínu sem borgarbókavörður. Mannauðshluti námsins, þ.e. það sem snýr að stjórnun mannauðs hefur einnig verið afar gagnlegur og viðskiptatengingin sem var þá og er mjög sterk í náminu hefur nýst feikivel. Í heild hefur námið nýst mér á margvíslegan hátt í daglegum störfum sem stjórnandi stærstu og mest sóttu menningarstofnunar Reykjavíkurborgar,“ segir Pálína.

Dvöl á Bifröst dásamleg upplifun

„Ég valdi meistaranám í menningarstjórnun því það hentaði vel inn í það starf sem ég hef gegnt frá því ég var 28 ára, að vera forstöðumaður bókasafns. Ég taldi ekki að framhaldsnám í mínu fagi hentaði mér sem stjórnanda og tók því ákvörðun um að sækja um þetta nám þegar ég sá það auglýst. Valið stóð um að fara í Opinbera stjórnsýslu eða þetta og ég valdi menningarstjórnunina kannski vegna þess að mér fannst og finnst enn menningarfræðin afar spennandi. Námið sjálft reyndist það líka enda hitti ég fyrir á Bifröst ólíkan hóp fólks sem lagði stund á þetta nám og kynntist ótrúlega skemmtilegu fólki sem ég er svo að hitta fyrir á ný í gegnum starf mitt sem borgarbókavörður,“ segir Pálína.

Aðspurð um upplifun sína af náminu segir Pálína fyrirlestrana almennt hafa verið afar fræðandi og skemmtilega og að fimm vikna dvöl á Bifröst tvö sumur í röð hafi verið dásamleg upplifun sem staðið hafi algerlega undir væntingum. „Hópavinna hentar mér mjög vel og virkaði ágætlega í náminu og vinnuhelgarnar að vetri sömuleiðis,“ segir Pálína.

Ljósmyndari: Dagur Gunnarsson.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta