Pétur ásamt dóttur sinni, Hafdísi við útskrift Péturs frá Háskólanum á BIfröst.

Pétur ásamt dóttur sinni, Hafdísi við útskrift Péturs frá Háskólanum á BIfröst.

20. maí 2019

Nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði opnar fleiri dyr en þú heldur

Pétur Steinn Pétursson útskrifaðist nú um áramótin úr heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði en hann fékk verðlaun fyrir hæstu einkunn útskriftarnema við Félagsvísinda- og lagadeild sem og að fá skólagjöld felld niður fjórum sinnum vegna framúrskarandi námsárangurs á námsferlinum. Pétur var nýverið tekinn inn í Kaupmannahafnarháskóla í meistaranám sem ber heitið IT and Cognition, en aðeins eru teknir um 30 einstaklingar inn í námið ár hvert og eru gerðar strangar kröfur fyrir inntöku. Námið snýr að samspili upplýsingatækninnar og huglægrar vitundar og skilnings.

Pétur segir að hann hafi ávallt verði hugfanginn af tölvum og hugbúnaði en hann skrifaði sitt fyrsta forrit þegar hann var 9 ára. Seinna meir hafi hann snúið sér að fjármálageiranum og samtvinnað það við tölvuáhuga sinn. Hann hafi þó alltaf haft áhuga á hinu huglæga líka og því sá hann heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði sem hina fullkomnu námsbraut fyrir sig.

Námið gaf mér að geta haldið fleiru en einu og fleiri en tveimur sjónarhornum á lofti við að melta og meðtaka viðfangsefni. Heimspeki er í öllu og hagfræði og stjórnmálafræði eru systkini. Heimspeki og mannlegi þátturinn verður sífellt mikilvægari í upplýsingatækni eftir því sem við látum tölvur taka fleiri ákvarðanir. Þá gefur HHS manni þann eiginleika að geta myndað sér skoðun á öllum álitaefnum, hafa samtímis fleira en eitt sjónarhorn til þess að taka ákvarðanir út frá og svara flóknum spurningum innan hinna ýmsu greina.“ Segir Pétur aðspurður um HHS námið sjálft.

Þá segir Pétur þetta einnig staðfesta það hversu vítt úrval af námsbrautum opnist við það að ljúka gráðu í HHS. „Tengingin á milli heimspeki og upplýsingatækni er alltaf að aukast, í stórum háskólum úti í heimi hafa verið settir á fót kjarnar þar sem upplýsingatæknin og hugvísindin koma saman. Leiðin sem tölvurnar ákveða er ekki alltaf betri og þess vegna er enn mikilvægara að halda mannlegum gildum í slíkri ákvarðanatöku. Forritarar verða að hafa sans fyrir samfélaginu og félagsfræðingar sans fyrir tækninni.“ Segir Pétur um samspil HHS námsins annars vegar og meistaranámsins hins vegar. 

Hann er mjög ánægður með námið á Bifröst, hann segir eitt það besta við námið hafi verið hversu sveigjanlegt það var. „Lykillinn er að finna umhverfi þar sem þú getur fundið út hvaða aðferð hentar þér best, mismunandi leiðir hentuðu mér í mismunandi áföngum á milli þessara þriggja greina. Fjarnámið hjálpaði mér að geta fundið ákveðnar leiðir til þess að geta lært mismunandi efni á mismunandi hátt, með því til dæmis að hlusta á fyrirlestra  mis-oft og á mismunandi hraða. Þá gerði fjarnámið mér einnig kleift að þurfa ekki að setja fjölskylduna og einkalífið alveg til hliðar, tíminn nýtist svo vel þegar ég get hagað náminu alfarið eftir mínu höfði og maður lærir að stýra tímanum betur og betur eftir því sem líður á námið“ Segir Pétur um eiginleika fjarnámsins en hann hrósar því einnig hversu persónulegt það var. „Ég er þakklátur fyrir gott aðgengi að kennurum og að þeir séu tilbúnir að veita persónulega leiðsögn, fjarnám er ekki bara fjarnám.“

 Aðspurður frekar út í það nám sem nú býður hans í Danmörku sagði Pétur: „Ég vil geta skapað börnunum mínum grunn sem verður mikilvægur fyrir þeirra framtíð. Heimspeki er í öllu, hún veltir upp spurningunum sem eru á bak við allt og þegar við höfum svarið þá verður það vísindi. Heimspekin verður alltaf til staðar því hún þarf að stýra tækninni á þann stað sem við viljum.“

Við óskum Pétri til hamingju með að hafa komist inn í námið vonum að honum gangi sem best, hér er hægt að kynna sér námið og aðgangskröfur þess.

Hér er hægt að kynna sér nám í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði, umsóknarfrestur rennur út 15. júní næstkomandi. 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta