Nám í Háskólagátt rifjaði upp námsáhugann 6. júní 2017

Nám í Háskólagátt rifjaði upp námsáhugann

Háskólagátt Háskólans á Bifröst þjónar þeim sem fullnægja ekki formlegum inntökuskilyrðum háskóla og þeim sem þurfa á undirbúningsnámi að halda. Námið býr nemendur undir nám á háskólastigi í greinum hug- og félagsvísinda og veitir einnig undirstöðumenntun á framhaldsskólastigi. Námið er í boði bæði í fjar- og staðnámi og eru kjarnagreinar þess íslenska, stærðfræði og enska. Nám við Háskólagátt nýtist jafnt til áframhaldandi háskólanáms við Háskólann á Bifröst svo og annara háskóla landsins.

Hlynur Hansen stundar nám í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík, en hann útskrifaðist úr Háskólagátt árið 2014, og segir námið hafa nýst sér afar vel við frekara nám.

„Hvorugt okkar var með stúdentspróf þegar ég og konan mín fórum að vera saman en okkur langaði að halda áfram námi og höfðum rætt okkar framtíðardrauma. Þegar við sáum auglýst eins árs nám við Háskólagátt á Bifröst á hagstæðu verði fannst okkur það því rökrétt næsta skref og fluttum skömmu síðar á Bifröst til að hefja þar nám,“ segir Hlynur.

Hlynur segir upplifun sína af náminu hafa verið góða og fljótt hafi rifjast upp fyrir honum hve gaman honum þótti að læra og hvað nám hafði áður reynst honum auðvelt og þá sérstaklega stærðfræði. Hlynur segist hafa haft mest gaman að bókfærslunni og stærðfræðinni og hafi Jón Freyr verið einn sá allra besti kennari sem hann hafi nokkurn tímann haft.

„Jóni Frey tókst að kenna mér hluti sem ég hélt ég vissi en fékk nýja nálgun á og í stærðfræðinni rifjuðust upp hlutir fyrir mér sem ég var búinn að gleyma. Það má líkja þessu við að ná að starta gömlum bíl. Jón Freyr hefur líka verið duglegur að halda sambandi og hélt áfram að reynast mér mjög vel eftir að ég útskrifaðist. Það nýttist mér vel þegar ég var að hefja nám í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík,“ segir Hlynur.

„Þetta nám hentar mjög vel fyrir alla sem vilja fara aftur af stað. Ég var rétt tæplega þrítugur þegar ég settist aftur á skólabekk og var ekki viss um að ég myndi passa inn í hópinn en sá fljótt að vel var  tekið á móti öllum. Kennararnir leggja sig fram við að veita manni þá aðstoð sem maður telur sig þurfa og gera efnið áhugavert. Svo er einstaklega gott að búa á Bifröst,“ segir Hlynur.

Umsóknarfrestur í Háskólagátt er til 15. júní og má nálgast allar helstu upplýsingar hér og í myndbandinu hér að neðan.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta