Nærri 100 manns samankomnir á afmælishátíð á Bifröst 4. desember 2018

Nærri 100 manns samankomnir á afmælishátíð á Bifröst

Afmælishátíð á Bifröst þann 3. desember var vel sótt og komu þar saman nærri 100 velunnarar og hollvinir Háskólans á Bifröst ásamt þingmönnum, embættismönnum og starfsfólki skólans. Sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar var háttvirtur forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson. Hann naut leiðsagnar um háskólann undir stjórn Vilhjálms Egilssonar, rektors, og Þóris Páls Guðjónssonar, kennara við skólann til margra ára.

Hátíðin hófst með ávarpi forseta en auk hans ávörpuðu samkomuna m.a. félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, Óli H. Þórðarson, formaður Hollvinasjóðs Bifrastar, barnabörn Jónasar frá Hriflu þær Guðrún Eggertsdóttir og Gerður Steinþórsdóttir og Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst.  Auk þess stigu fyrrverandi skólastjórar og rektorar Samvinnuskólans og Háskólans á Bifröst á svið og minntust síns tíma við skólann. Hátíðarstjóri var Leifur Runólfsson, stjórnarformaður háskólans. Að hátíðardagskrá lokinni var boðið til glæsilegrar afmælisveislu á Hótel Bifröst og lá vel á gestum sem rifjuðu upp gamla og góða tíma á Bifröst og horfðu um leið björtum augum til framtíðarinnar.

Í ávarpi sínu kom Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst inn á það að hlutverk háskólans væri að vera leiðandi í stefnumótun og þjóna nemendum í síbreytilegum heimi. „Það er mikill heiður að geta státað af þessum áfanga og starfsfólk okkar vinnur hugsjónastarf sem við öll trúum á og að með því séum við að leggja mikið af mörkum til íslensks samfélags,“ sagði Vilhjálmur m.a. í ávarpi sínu. Í ávörpum fyrrum skólastjóra og rektora bar við svipaðan tón um að framtíð Bifrastar væri björt, skólinn ætti erindi og því væri hann hér enn og sú snerpa og sveigjanleiki til að aðlagast breyttum aðstæðum sem innan veggja hans ríktu hefði reynst skólanum vel oftar en einu sinni.

Aðstandendur Háskólans á Bifröst þakka forseta Íslands, mælendum og öðrum gestum dagsins kærlega fyrir komuna og ánægjulegan dag.

 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta