Mótaðu þína framtíð í Háskólagáttinni á Bifröst 20. júní 2019

Mótaðu þína framtíð í Háskólagáttinni á Bifröst

Háskólagáttin á Bifröst er námsleið fyrir þá sem uppfylla ekki formleg inntökuskilyrði háskóla. Námið við Háskólagáttina er sett upp eins og háskólanám sem tekur við að lokinni útskrift. Kennt er í stuttum lotum og lögð er mikil áhersla á sjálfstæð vinnubrögð nemenda. Allir fyrirlestrar og annað námsefni er aðgengilegt á netinu og geta nemendur því skipulagt námið alfarið eftir sínum þörfum. Þá vinna nemendur með námsefnið á fjölbreyttan hátt og glíma við raunhæf verkefni þar sem lögð er áhersla á skapandi og gagnrýna hugsun.

Í háskólagáttinni eru kenndar þrjár undirstöðugreinar, íslenska, stærðfræði og enska en í viðbót við það eru kenndar fjórar áherslugreinar, bókfærsla, lögfræði, danska og heimspeki. Hægt er að fara þrjár leiðir í námi í Háskólagátt og hægt að velja ámilli áherslusviða. Almennt nám leggur áherslu á undirstöðugreinarnar þrjár og er góður undirbúningur fyrir hvaða háskólanám sem er. Þá er einnig hægt að velja tvær leiðir með áherslu á mismunandi viðfangsefni, áhersla á verslun og þjónustu annars vegar og hins vegar áhersla á félagsvísindi. Háskólagátt með áherslu á verslun og þjónustu er góður undirbúningur fyrir nám í viðskiptatengdum greinum en ekki síður til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaðnum eða í eigin rekstri. Háskólagátt með áherslu á félagsvísindi er ný lína og kennsla í henni hefst í fyrsta skipti næsta haust, áherslan er sniðin að þörfum þeirra sem stefna á áframhaldandi nám í félagsvísindum.

Námið í Háskólagátt hefur hingað til miðast við eitt ár en nú er einnig í boði að stunda námið með vinnu og er áföngunum þá skipt niður á tvö ár. Sú skipulagning námsins gefur nemendum rýmri tíma til þess að sinna hverjum áfanga fyrir sig sem og vinnu og fjölskyldu.

Allar áherslur eru kenndar í fjarnámi sem þýðir að hægt er að stunda námið hvar sem er og á eigin forsendum. Lögð er mikil áhersla á persónulega leiðsögn og þjónustu við nemendur og mikilvægur líður í fjarnáminu eru vinnuhelgar þar sem nemendur hittast og kynnast kennurunum. Vinnuhelgar eru mikilvægur liður í að tryggja persónulegt tengsl nemenda og kennara og er skólinn stoltur af þeirri persónulegu þjónustu sem hann veitir. 

Eins og áður segir hefur námið sannað sig sem góðan undirbúning fyrir háskólanám í hinum ýmsu greinum, við höfðum samband við nokkra af fyrrverandi nemendum og báðum þá um að segja okkur frá þeirra upplifun af gáttinni sem undirbúningi fyrir áframhaldandi nám.

Námið í háskólagáttinni gaf mér ákveðið forskot þegar í háskólanám var komið. Þar lærði ég réttu vinnubrögðin sem ég tel að hefðbundið framhaldsskólanám hefði ekki gefið mér og nýttist námið mér afar vel í mínu laganámi.“

Hallgrímur Tómasson, útskrifaðist úr Háskólagátt 2015, er nú í meistaranámi í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík.

Það er ekki fyrir alla að fylgja þeim hefðbundnu leiðum sem samfélagið byggir á, það er að segja að fara í grunnskóla, klára menntaskólann og taka svo háskólann beint í framhaldinu. Það er mikið af flottu fólki í samfélaginu sem blómstrar á mismunandi tímum ævinnar. Í mínu tilfelli hafði ég ekki áhuga á námi í kringum tvítugsaldurinn og það hentaði mér því betur að fara á vinnumarkaðinn og afla mér reynslu fyrst. Í kringum þrítugt vaknaði svo hjá mér mikill áhugi fyrir námi og þökk sé Háskólagáttinni á Bifröst gafst mér tækifæri til að uppfylla drauminn um að stunda nám á háskólastigi.

Bjarni Heiðar Halldórsson, útskrifaðist úr Háskólagátt 2018, er nú í grunnnámi í viðskiptarfæði við Háskólann á Bifröst.

„Háskólagáttin reyndist mér ómetanlega góður grunnur fyrir áframhaldandi nám. Uppsetning námsins er þannig að lítill tími gefst til þess að missa sjónar  af markmiðinu og krefur hún nemendur ítrekað til þess að stíga út fyrir þægindaramman. Helsti styrkur gáttarinnar liggur í frábærum kennurum, vilji þeirra til þess að gera námsefnið aðgengilegt skein í gegn í hverjum fyrirlestri og hverri kennslustund. Fög sem áður virtust óyfirstíganleg urðu skyndilega einföld og skemmtileg.“

Berglind Sunna Bragadóttir, útskrifaðist úr Háskólagátt 2016, lauk í framhaldi B.A. gráðu í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.

Nánar er hægt að lesa sér til um námsframvindu og forkröfur hér. Umsóknarfrestur í háskólagáttina rennur út 22. júní næstkomandi, kynntu þér málið!

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta