Missó – framtíð netverslunar á Íslandi 3. júní 2021

Missó – framtíð netverslunar á Íslandi

Meðal þess sem gerir nám við Háskólann á Bifröst frábrugðið námi við aðra háskóla á Íslandi eru svokölluð misserisverkefni sem alla jafna eru kölluð missó. Misserisverkefni eru sjálfstæð hópverkefni sem reyna á mun fleiri þætti en hefðbundin verkefni. Tilgangur þeirra er að veita nemendum tækifæri til að dýpka skilning sinn á afmörkuðu sviði og öðlast þannig meiri sérfræðiþekkingu en ella. Misserisverkefnin gegna mikilvægu hlutverki við að þjálfa nemendur í að beita viðurkenndum vísindalegum aðferðum við rannsókn eða lausn hagnýtra og fræðilegra viðfangsefna.

Nemendur taka alla jafna misserisverkefni tvisvar í grunnnámi sínu og eru þau varin við hátíðlega athöfn þar sem saman koma nemendahópurinn sem vann verkefnið, annar nemendahópur sem hefur undirbúið spurningar, leiðbeinandinn í verkefninu og prófdómari. Athafnirnar eru afar formlegar og þeim er stýrt af fundarstjóra.

Í ár var missó haldið dagana 11. og 12. maí og lauk þessum dögum venju samkvæmt með boði þar sem besta verkefnið hlaut viðurkenningu. Verkefnið sem taldist best í ár heitir Áhrifaþættir í árangursríkri netverslun á Íslandi og hlaut það nánast fullt hús stiga.

Í verkefninu var sjónum beint að þeim áhrifaþáttum netverslunar sem skipta íslenska neytendur mestu máli. Rannsóknarspurningin var: Hverjir eru hugsanlegir áhrifaþættir og lykilatriði í hönnun á árangursríkri netverslun og hvaða þættir skipta íslenska neytendur mestu máli.

Gerð var rannsókn þar sem kannað var vægi þeirra þjónustuþátta og gæðavídda sem hafa áhrif á heildargæði þjónustu og árangursríka netverslun með spurningakönnun sem lögð var fyrir íslenska notendur vefverslana. Fræðilegur bakgrunnur verkefnisins afmarkast af umfjöllun um netverslun á Íslandi, þjónustu, gæðavíddir netverslunar og mælikvarða árangursríkrar netverslunar.

Niðurstöðurnar gáfu til kynna að efndir og hönnun vefsíðu hafi mest vægi gæðavídda á heildargæði þjónustu meðal íslenskra neytenda. Með efndum er átt við hversu vel netverslunin uppfyllir þau loforð sem gefin eru og hversu hratt og örugglega vörurnar eru afhentar, þ.e. réttu vörurnar í heilu lagi og innan þeirra tímamarka sem lofað var. Einnig kom í ljós að þjónusta við viðskiptavini hefur ekki áhrif á heildargæði þjónustu að mati neytenda. Þá komu fram marktæk jákvæð tengsl heildargæða þjónustu við traust og ánægju viðskiptavina. Að lokum hafa ánægja og traust jákvæð marktæk tengsl við áform neytenda um endurkaup, umtal og endurkomu í netverslun.

Í nemendahópnum sem vann þetta verkefni voru Alexandra Mjöll Jóhönnudóttir, Auður Ösp Ólafsdóttir, Dóra K. Hlíðberg Rafnsdóttir, Lára Guðjónsdóttir, Péturína Laufey Jakobsdóttir og Sunna Rut Garðarsdóttir en þær eru allar nemendur í viðskiptafræði. Leiðbeinandi hópsins var Brynjar Þór Þorsteinsson lektor við skólann.

Þetta var fyrsta misserisverkefni Auðar Aspar Garðarsdóttur og hún var afar ánægð með reynsluna. Þegar hún var spurð hvaða lærdóm hún teldi sig geta dregið af reynslunni sagði hún: „Stóra málið er þessi teymisvinna og hvað það er mikilvægt að finna styrkleika hvers og eins svo allir fái að blómstra og njóta sín. Hópurinn var mjög vel samstilltur sem gerði það að verkum að það ríkti traust á milli hópmeðlima og allir fengu rými til að sinna sínu hlutverki. Mér finnst að við höfum allar náð einhvers konar persónulegum þroska í þessu ferli með því að stíga út fyrir þægindarammann og treysta því að við yrðum gripnar af hópnum ef illa færi.“

Auður Ösp segir að persónulega hafi sér gagnast mest að skoða aðferðafræði. „Það kveikti áhuga minn á frekara rannsóknarstarfi en svo verður bara að koma í ljós hvað kemur út úr því. Svo var ómetanlegt að hafa hóp af klárum konum með mér í þessu sem trúðu 100% á mig þegar að ég var alls ekki viss sjálf um að ég væri á réttri leið.“

Háskólinn á Bifröst óskar hópnum hjartanlega til hamingju með góðan árangur.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta