Missó í Háskólanum á Bifröst
Í dag og á morgun er hátíðarstemning í Háskólanum á Bifröst. Nemendur í grunnnámi eru að verja misserisverkefni sín en þau eru eitt af aðalsmerkjum háskólastarfsins á Bifröst.
Þessi verkefni sem í daglegu tali eru kölluð missó eru sjálfstæði hópverkefni þar sem reynir á marga þætti. Tilgangurinn með verkefnunum er margþættur en fyrst og fremst gefa þau nemendum tækifæri til þess að dýpka skilning sinn á afmörkuðu sviði og öðlast þannig meiri sérfræðiþekkingu en ella. Í misserisverkefnum er áhersla lögð á að nemendur beiti fræðilegri þekkingu sem þeir hafa tileinkað sér í náminu við úrlausn raunhæfra verkefna eða fræðilegra viðfangsefna. Í verkefnunum eru viðfangsefni sótt í samtímann og áhersla er lögð á að niðurstaða þeirra leggi eitthvað af mörkum til samfélagsins.
Nemendum í grunnnámi við Háskólann á Bifröst er skylt að taka tvö missó í námi sínu og fá þeir 8 ECTS einingar fyrir hvert verkefni. Margir útskrifaðir Bifrestingar segja að námi loknu að vinnan að misserisverkefnum og varnir verkefnanna séu meðal þess sem stendur upp úr eftir námið á Bifröst, vinnan við missó sé vissulega bæði krefjandi og stressandi en þó um fram allt skemmtileg og lærdómsrík.
Varnir misserisverkefna fara fram í fimm kennslustofum og -sölum samtímis og standa í tvo daga. Varnirnar eru afar formlegar. Þar er fundarstjóri, kennari og prófdómari sem dæma vörnina og nemendahópur sem spyr spurninga. Auk þess eru flestar varnir opnar áheyrendum. Missó lýkur með lokahófi þar sem verðlaun eru veitt fyrir besta verkefnið.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta