Missó – vopnaburður lögreglu 10. júní 2021

Missó – vopnaburður lögreglu

Misserisverkefni – eða missó – eru sjálfstæð hópverkefni þar sem nemendur beita viðurkenndum vísindalegum aðferðum við rannsókn eða lausn á hagnýtu eða fræðilegu viðfangsefni.

Alla jafna tekur hver nemandi tvö misserisverkefni í grunnnámi sínu og eru verkefnin svo varin við hátíðlega athöfn. Í ár var missó dagana 11. og 12. maí og samkvæmt venju voru veitt verðlaun fyrir það verkefni sem hæstu einkunnina hlaut. Í ár var óvenjulega mjótt á mununum og verkefnið sem var í öðru sæti var aðeins fáeinum stigum frá sigurverkefninu. Í því verkefni var fjallað um hvort tímabært sé að almenn lögregla á Íslandi beri skotvopn. Heiti verkefnisins er Vopnaburður lögreglunnar - Er aukinn vopnaburður lögreglunnar á Íslandi tímabær eða mun hann leiða til stigmagnandi ofbeldis.

Hópurinn bak við verkefnið var skipaður Írisi Valgeirsdóttur, Júlíusi Andra Þórðarsyni, Sabrinu Sigríði Sigurðardóttur, Sif Baldursdóttur Úlfi Atla Stefaníusyni og Ögmundi Ísak Ögmundssyni. Fjögur þeirra stunda nám í miðlun og almannatengslum og tvö í HHS, heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Leiðbeinandi hópsins var Sævar Ari Finnbogason.

Skoðað var hvort tímabært væri að vopna lögregluna frekar við störf sín og hvort það myndi leiða til stigmagnandi ofbeldis. Skoðaður var vopnaburður lögreglu eins og hann er nú og heimspekilegileg álitaefni sem snerta á valdbeitingu lögreglu. Þá var fjallað um fyrri rannsóknir um efnið og staðan á Íslandi borin saman við nágrannalönd og fjallað um áhrif hnattvæðingar á ólöglega starfsemi. Þá voru tekin viðtöl við viðmælendur sem tengjast viðfangsefninu.

Niðurstöður leiddu í ljós að ekki er tímabært fyrir íslensku lögregluna að bera frekari vopn en hún gerir í dag. Fræðilegur bakgrunnur og eigindleg rannsókn gaf þá mynd að aukinn vopnaburður lögreglu samræmdist íslensku samfélagi illa þrátt fyrir að blikur séu á lofti varðandi frekari umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi. Æskilegra sé að horfa til lausna eins og aukins mannafla og bættrar menntunar en aukna vopnavæðingu. Að mati Sævars Ara, leiðbeinanda hópsins, þá nýttist vel hin þverfaglega nálgun sem HHS-námið býður upp á við að takast á við þetta flókna samfélagslega viðfangsefni. 

Sabrina Sigríður leggur stund á nám í HHS. Hún lætur vel af samstarfinu og segir miklu máli hafa skipt að tveir í hópnum höfðu unnið misserisverkefni áður. Hún sagði að þeirra vegna hafi vinnan orðið skipulegri og markvissari en ella. Um ástæðu þess að hópurinn valdi þetta verkefni segir hún: „Við völdum þetta af því að okkur fannst viðfangsefnið áhugavert og vorum viss um að það yrði skemmtilegt að vinna að því.“ Hún segir að niðurstöðurnar hafi ekki komið henni á óvart. „Samt kom ástæðan fyrir niðurstöðunni mér á óvart, hversu mikil áhrif samfélagið á hverjum tíma hefur. Kannski verður niðurstaðan allt önnur eftir tíu ár.“

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta